Viðskipti innlent

Hafdís til VÍS

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Hafdís Hansdóttir
Hafdís Hansdóttir Aðsend
Hafdís Hansdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Þjónustu hjá VÍS. Fram kemur í tilkynningu frá Vátryggingafélaginu að Hafdís hafi frá árinu 2000 starfað hjá Arion banka og forverum hans, nú síðast sem svæðisstjóri útibúa á höfuðborgarsvæðinu.

Þá hafi hún gegnt ýmsum störfum á sínum ferli hjá bankanum sem snúa öll að þjónustu við viðskiptavini, m.a. verið útibússtjóri í Kópavogi, forstöðumaður þjónustuvers og sviðsstjóri þjónustukjarna á Viðskiptabankasviði.

Hafdís hefur lokið markþjálfaranámi frá Háskólanum í Reykjavík og rekstrar- og viðskiptanámi hjá Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands. Hún er með BA gráðu í félags- og fjölmiðlafræði frá Háskóla Íslands og meistaragráðu í kvennafræðum frá Lancaster University.

Haft er eftir Hafdísi í tilkynningunni að hún sé full tilhlökkunar. „Þjónusta hefur verið mitt hjartans mál nær allan minn starfsferil. Það er gríðarlega mikilvægt að viðskiptavinir VÍS finni að félagið er traust bakland í óvissu lífsins. Að því mun ég vinna alla daga.“

Forstjóri VÍS, Helgi Bjarnason, segist ánægður að hafa fengið Hafdísi til liðs við fyrirtækið. „Hún býr yfir yfirgripsmikilli þekkingu og reynslu af þjónustu við viðskiptavini og hefur á síðustu árum helgað sig því að bæta upplifun viðskiptavina. Við ætlum að veita viðskiptavinum okkar framúrskarandi þjónustu, m.a. í gegnum stafrænar dreifileiðir. Hafdís verður mikilvægur hlekkur í þeirri vegferð og frábært að fá hana liðs við okkur.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×