Umfjöllun og viðtöl: Grindavík - ÍR 95-89 | Grindavíkursigur í mögnuðum leik

Smári Jökull Jónsson skrifar
Ólafur Ólafsson, leikmaður Grindavíkur.
Ólafur Ólafsson, leikmaður Grindavíkur. vísir/ernir
Grindavík vann magnaðan sigur á ÍR í Grindavík í kvöld í 20.umferð Dominos-deildar karla. ÍR leiddi nær allan leikinn en frábær lokaleikhluti hjá Grindavík færði þeim sex stiga sigur, 95-89.

Leikurinn var frábær skemmtun og var mikil barátta allan tímann. Menn spiluðu fast og Grindvíkingar kvörtuðu töluvert í dómurunum í fyrri hálfleiknum og fannst á sig halla.

Eftir jafnar fyrstu mínútur tóku ÍR-ingar völdin. Þeir náðu mest 15 stiga forskoti og leiddu með 10 stigum í hálfleik, 47-37.

Það var lítið sem benti til þess í þriðja leikhluta að heimamenn næðu að snúa taflinu við. Vörnin var ekki nógu öflug og ef þeir nálguðust ÍR-inga að ráði kom alltaf svar frá Breiðhyltingum.

Staðan fyrir lokaleikhlutann var 72-61 og allt útlit fyrir sigur ÍR. En þá gerðist eitthvað hjá þeim gulklæddu. Þeir mættu brjálaðir til leiks, J´Nathan Bullock fór í ham og vörnin tók við sér. Heimamenn í stúkunni vöknuðu og lokaleikhlutinn var frábær skemmtun.

Á sjö mínútum breyttu Grindvíkingar stöðunni úr 73-61 ÍR í vil, í 88-80 sér í vil. Magnaður viðsnúningur og ÍR-ingar urðu undir í baráttunni. Hasarinn var mikill og stundum munaði litlu að upp úr syði en það voru heimamenn sem fögnuðu 95-89 sigri, sigur sem gæti gefið þeim mikið fyrir baráttuna á lokahluta tímabilsins.

Af hverju vann Grindavík?

Þeir gáfust aldrei upp og eins og Ólafur segir í viðtali eftir leik var lykilatriði fyrir þá að missa ÍR-inga aldrei of langt fram úr sér. Í fjórða leikhluta komu þeir gríðarlega sterkir til leiks og hreinlega keyrðu yfir ÍR-inga.

Gestirnir hafa stundum átt í vandræðum með að drepa leiki sem þeir leiða og það gerðist í kvöld. Þeir urðu líklega af deildarmeistaratitlinum með tapinu en þeir mæta toppliði Hauka í næstu umferð þar sem þeir hefðu getað jafnað þá að stigum með sigri. Nú munar hins vegar fjórum stigum þegar tvær umferðir eru eftir.

Þessir stóðu upp úr:

J´Nathan Bullock skoraði 24 stig í seinni hálfleik og var magnaður og sá sem leiddi áhlaup heimamanna. Sigurður Gunnar kom öflugur inn í lokin og þá áttu Ólafur, Dagur og Ingvi allir fína spretti.

Hjá ÍR var Ryan Taylor frábær, skoraði 26 stig og tók 9 fráköst. Sveinbjörn Claessen átti fína innkomu af bekknum og Danero Thomas var nálægt þrennunni með 12 stig, 9 fráköst og 7 stoðsendingar.

Hvað gekk illa?

ÍR-ingar voru ekki klárir í baráttuna í lokafjórðungnum. Þeir leyfðu Grindvíkingum að ná þessu áhlaupi og þessi tapleikur svíður örugglega hrikalega mikið, sérstaklega í ljósi þess að deildarmeistaratitilinn er líklega farinn.

Vörn Grindavíkur var slök í 28-29 mínútur en frábær eftir það. Vörnin hefur verið vandamál hjá þeim gulklæddu en nú fengu þeir kannski smjörþefinn af því hversu góð hún getur verið.

Hvað gerist næst?

Grindavík heldur í Valsheimilið og mætir þar heimamönnum. Grindavík á góða möguleika á 5.sætinu og það verður forvitnilegt að sjá hvernig liðin raðast því Grindavík vill líklegast sleppa við KR í fyrstu umferð úrslitakeppninnar, en KR situr nú í 4.sætinu.

ÍR á stórleik gegn Haukum á sunnudag. Hefði ÍR unnið í kvöld værum við á leið að sjá úrslitaleik um deildarmeistaratitilinn en Breiðhyltingar klúðruðu málunum í kvöld. Leikurinn er samt sem áður bæði mikilvægur og áhugaverður enda vill hvorugt liðið tapa gegn öðru toppliði.

Jóhann Þór: Glitti í það sem við viljum standa fyrir
Jóhann Þór Ólafsson, þjálfari Grindavíkur.vísir/ernir
Jóhann Þór Ólafsson þjálfari Grindavíkur var að vonum ánægður eftir sigurinn á ÍR í kvöld og þá sérstaklega lokafjóðunginn sem Grindavík vann 34-17.

„Ég er mjög sáttur með mína menn og sérstaklega síðustu tólf mínúturnar. Við vorum aðeins á hælunum í fyrri hálfleik og lungann úr þriðja leikhluta en þetta er svakalega góður karakter og ég er ánægður með menn á bekknum sem komu inn og sneru þessu við. Það var kraftur í okkur síðustu 10-12 mínúturnar og ég er mjög sáttur,“ sagði Jóhann við Vísi eftir leik

Stemmningin var mögnuð í Mustad-höllinni í kvöld og Jóhann var ánægður með sitt fólk.

„Það vel mætt og ÍR-ingarnir alltaf með sitt „crew“. Það var virkilega góð stemmning og vonandi það sem koma skal.“

Í lokafjórðungnum í kvöld sást í það Grindavíkurlið sem margir bjuggust við fyrir tímabilið enda hópurinn vel mannaður. Jóhann var sammála blaðamanni að þessi sigur gæti gefið þeim sjálfstraust.

„Þetta er mjög mikilvægt. Við erum að reyna að koma okkur á þann stað sem við viljum vera á. Það er ekki mikið eftir þannig að sigur í kvöld var mjög kærkominn. Í fjórða leikhluta glitti í það sem við viljum standa fyrir. Við vorum góðir gegn Stjörnunni síðast, við vorum seinir af stað í dag en þetta slapp fyrir horn.“

Grindavík á eftir leiki við Val og Þór Akureyri, tvö lið í neðri hlutanum. Er Jóhann eitthvað smeykur við vanmat í ljósi þess að heimamenn eru hátt upp eftir sigurinn í kvöld?

„Staðreyndin er sú að við erum að fara að spila við hörkugott Valslið á sunnudaginn. Valsmenn eiga að vera ofan en þeir eru. Þeir eru búnir að vera hörkuflottir í allan vetur og við erum að fara í svaka verkefni þar. Vanmat? Nei ég held ekki. Við undirbúum okkur eins vel og hægt er og vera klárir á sunnudag,“ sagði kampakátur Jóhann áður en hann fór inn í klefa.

Borche: Það þýðir ekkert að væla
Borce Ilievski, þjálfari ÍR.Vísir/Ernir
Borche Ilievski þjálfari ÍR sagði J´Nathan Bullock hafa verið muninn á liðunum í kvöld en hann var magnaður hjá Grindavík í síðari hálfleiknum.

„Mér fannst við leika vel í þrjá leikhluta. En leikurinn er 40 mínútur og við þurfum að klára hann til enda. J´Nathan Bullock skoraði 24 stig í seinni hálfleik, ég var að skoða tölfræðina. Við spiluðum ekki góða vörn á hann þó svo að sum skotin hans hafi verið erfið. Það er kannski vandamálið,“ sagði Borche í samtali við Vísi efir leikinn í kvöld.

ÍR leiddi lengst af og meðal annars með 11 stigum fyrir lokaleikhlutann. Þá benti fátt til þess að heimamenn færu með sigur af hólmi.

„Grindvíkingar mættu grimmari í síðasta leikhlutanum og við misstum stjórnina á leiknum. Við vorum yfir 73-71 en eftir það setti Grindavík skot niður og við gerum mistök í vörninni, sérstaklega í vagg og veltu og á fleiri stöðum. Það þýðir ekkert að væla og fyrir leikinn á sunnudag þurfum við að safna orku, vera einbeittir og mæta sterkir til leiks,“ bætti Borche við en ÍR mætir Haukum í toppslag í Breiðholtinu á sunnudag.

„Það er mikilvægur leikur, allir leikur eru það og við verðum að taka þessa leiki alvarlega og sérstaklega fyrst þennan á heimavelli á sunnudag. Við erum að fara að mæta frábæru liði og það verður erfiður leikur,“ en með tapinu í kvöld fjarlægðist deildarmeistaratitilinn ÍR-inga verulega.

ÍR eru öruggir með sæti í efstu fjórum sætunum fyrir úrslitakeppnina en Borche var sammála því að enginn vildi mæta Grindavík í fyrstu umferðinni en sagði jafnframt að ekkert lið gæti gengið að vísum sigri þegar þar að kemur.

„Grindavík er með frábært lið, það er gott jafnvægi í liðinu og þeir eru með reynda leikmenn. Öll liðin frá sæti 1-8 geta unnið hvort annað. Þetta tímabil er búið að vera jafnt og það mun koma í ljóst hvort heimavallaréttur liðanna mun skila miklu. Við þurfum að halda einbeitingu og berjast saman,“ sagði Borche að lokum.

Ólafur: Þakka stuðningsmönnum ÍR fyrir að kveikja í mér
Ólafur Ólafsosn, leikmaður Grindavíkur.Vísir/Eyþór
„Þetta var bara gaman. Það skipti miklu að við misstum þá aldrei langt fram úr okkur. Við kláruðum þetta í síðari hálfleik og ég er bara mjög sáttur,“ sagði Ólafur Ólafsson leikmaður Grindavíkur eftir sætan sigur heimamanna gegn ÍR í 20.umferð Dominos-deildar karla í körfuknattleik í kvöld.

Stuðningsmannasveit ÍR, Ghetto-Hooligans, mætti seint til Grindavíkur í kvöld en þegar þeir komu þá gerðu þeir það með látum. Þegar heimamenn náðu síðan áhlaupi í seinni hálfleik kviknaði heldur betur í stúkunni þeim megin og stemmningin í kvöld var frábær.

„Þetta var bara gaman. Það eru alltaf læti hjá ÍR-ingunum og ég vil nota tækifærið og þakka þeim kærlega fyrir að kveikja í mér. Þeir sögðu að ég gæti ekki hitt þannig að ég ákvað að setja eitt í smettið á þeim og þannig byrjaði þetta.“

„Svona á þetta að vera og þetta er alltaf svona hjá ÍR-ingum. Þeir eru búnir að vera með úrslitakeppnisáhorfendur allt tímabilið. Þetta var ógeðslega gaman.“

Ólafur lenti í rimmu við Sveinbjörn Claessen í síðari hálfleiknum eftir atvik á milli Sveinbjörns og Ingva Guðmundssonar. Ólafur hljóp yfir hálfan völlinn á eftir ÍR-ingnum reynda og var allt annað en sáttur.

„Hann setur hausinn eitthvað í höfuðið á Ingva og ég er bara að bakka minn liðsfélaga upp. Ef einhverjir eru að kýtast í þeim þá þurfa þeir að fara í gegnum mig fyrst og ég ætla bara að sjá til þess að hann vissi að hann væri á okkar heimavelli. Hann uppskar óíþróttamannslega villu og það var bara virkilega vel gert hjá dómurunum. Ég hefði alveg getað fengið tæknivillu en fékk það sem betur fer ekki,“ sagði Ólafur að lokum en sigurinn gerir það að verkum að Grindavík og Njarðvík eru nú jöfn að stigum í 5.-6.sæti deildarinnar.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira