Körfubolti

Ólafur: Þakka stuðningsmönnum ÍR fyrir að kveikja í mér

Smári Jökull Jónsson skrifar
Ólafur Ólafsosn, leikmaður Grindavíkur.
Ólafur Ólafsosn, leikmaður Grindavíkur. Vísir/Eyþór
„Þetta var bara gaman. Það skipti miklu að við misstum þá aldrei langt fram úr okkur. Við kláruðum þetta í síðari hálfleik og ég er bara mjög sáttur,“ sagði Ólafur Ólafsson leikmaður Grindavíkur eftir sætan sigur heimamanna gegn ÍR í 20.umferð Dominos-deildar karla í körfuknattleik í kvöld.

Stuðningsmannasveit ÍR, Ghetto-Hooligans, mætti seint til Grindavíkur í kvöld en þegar þeir komu þá gerðu þeir það með látum. Þegar heimamenn náðu síðan áhlaupi í seinni hálfleik kviknaði heldur betur í stúkunni þeim megin og stemmningin í kvöld var frábær.

„Þetta var bara gaman. Það eru alltaf læti hjá ÍR-ingunum og ég vil nota tækifærið og þakka þeim kærlega fyrir að kveikja í mér. Þeir sögðu að ég gæti ekki hitt þannig að ég ákvað að setja eitt í smettið á þeim og þannig byrjaði þetta.“

„Svona á þetta að vera og þetta er alltaf svona hjá ÍR-ingum. Þeir eru búnir að vera með úrslitakeppnisáhorfendur allt tímabilið. Þetta var ógeðslega gaman.“

Ólafur lenti í rimmu við Sveinbjörn Claessen í síðari hálfleiknum eftir atvik á milli Sveinbjörns og Ingva Guðmundssonar. Ólafur hljóp yfir hálfan völlinn á eftir ÍR-ingnum reynda og var allt annað en sáttur.

„Hann setur hausinn eitthvað í höfuðið á Ingva og ég er bara að bakka minn liðsfélaga upp. Ef einhverjir eru að kýtast í þeim þá þurfa þeir að fara í gegnum mig fyrst og ég ætla bara að sjá til þess að hann vissi að hann væri á okkar heimavelli. Hann uppskar óíþróttamannslega villu og það var bara virkilega vel gert hjá dómurunum. Ég hefði alveg getað fengið tæknivillu en fékk það sem betur fer ekki,“ sagði Ólafur að lokum en sigurinn gerir það að verkum að Grindavík og Njarðvík eru nú jöfn að stigum í 5.-6.sæti deildarinnar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×