Körfubolti

Skólastjórinn missti sig eftir flautublokk Taylor í Seljaskóla | Myndband

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Haukar voru einu skoti frá því að tryggja sér deildarmeistaratitilinn í Domino´s-deild karla í körfubolta í gærkvöldi þegar að liðið heimsótti ÍR í toppslag í Hertz-hellinn í Seljaskóla.

Lítið var skorað í leik tveggja sterkra varna en Haukar fengu síðustu sóknina eftir að Matthías Orri Sigurðarson brenndi af vítaskoti þegar að 7,6 sekúndur voru eftir. ÍR var þá tveimur stigum yfir, 64-62.

Gestirnir úr Hafnarfirðinum brunuðu fram völlinn og setti Bandaríkjamaðurinn Paul Anthony Jones III upp skot fyrir Hauk Óskarsson fyrir utan teiginn vinstra megin. Hann var fyrir utan þriggja stiga línuna þannig að karfa myndi tryggja Haukum sigur og deildarmeistaratitilinn.

Skotið komst þó aldrei nálægt körfunni því Ryan Taylor, Bandaríkjamaðurinn ótrúlegi í liði ÍR, kom fljúgandi og varði skot Hauks með tilþrifum. Í staðinn fyrir flautukörfu frá Haukum átti Taylor flautublokk.

Allt ætlaði um koll að keyra í Breiðholtinu og var enginn glaðari en skólastjórinn sjálfur í Seljaskóla, Magnús Þór Jónsson, sem stökk á Taylor og faðmaði drekann með látum. Geggjaður endir á geggjuðum leik.

Haukar eru enn í bílstjórasætinu um deildarmeistaratitilinn en liðið fær bikarinn afhentan í næstu umferð takist því að leggja Valsmenn á heimavelli.

Farið verður yfir þennan leik sem og alla hina í 21. umferðinni í Domino´s-Körfuboltakvöldi klukkan 21.00 á Stöð 2 Sport HD að loknum leik Stjörnunnar og Keflavíkur.

Flautublokkið má sjá í spilaranum hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×