Umfjöllun og viðtöl: Njarðvík - Tindastóll 103-102 | Tvíframlengt í Ljónagryfjunni

Magnús Einþór Áskelsson skrifar
Vísr/Andri Marinó
Njarðvíkingar unnu ótrúlegann sigur á Tindastól í æsispennandi tvíframlengdum naglbít í Ljónagryfjunni 103-102 í kvöld. Hreint út sagt frábær leikur sem gefur góð fyrirheit fyrir úrslitakeppnina.

Njarðvíkingar byrjuðu leikinn af krafti sem hefur vantað í síðustu leikjum, spiluðu fasta vörn og náðu í framhaldinu flottu flæði í sókninni í hröðum leik. Terrell Vinson fór fyrir heimamönnum og skoraði 10 stig á fyrstu fjórum mínútum leiksins. Tindastólsmenn virtust heilum horfnir og leiddu heimamenn með fimmtán stigum eftir fyrsta leikhluta 29-14. 

Stólarnir komu ákveðnir til leiks í öðrum leikhluta, þéttu varnarleikinn og smátt og smátt fóru þeir að anda ofan í hálsmálið hjá heimamönnum sem áttu í stökustu erfiðleikum að skora körfur utan að velli. Njarðvíkingar skoruðu aðeins ellefu stig gegn tuttugu og fimm stigum gestana, 40-39 í hálfleik. 

Tindstólsmenn tóku snemma frumkvæðið í þriðja leikhluta og náðu forystu í leiknum. Njarðvíkingar voru þó aldrei langt undan. Gestirnir náðu mest sjö stiga forystu í leikhlutanum en Logi Gunnarsson fór þá í gang fyrir heimamenn og með fimm stigum í röð var þetta orðinn jafn leikur á ný. Tindstóll leiddi með þremur stigum fyrir fjórða leikhluta. 

Áfram hélt baráttan og voru gestirnir enn með frumkvæðið. Tindstólsmenn leiddu með sjö stigum þegar tæpar fjórar mínútur voru eftir enn þá hófst þáttur Maciek Baginski sem nelgdi þremur þristum niður á næstu mínútum og kom Njarðvík yfir þremur stigum yfir af vítalínunni þegar skammt var eftir. Helgi Freyr Margeirsson jafnaði leikinn fyrir gestina með þrist þegar þrjár sekúndur voru eftir, 78-78 þegar og því framlengt. 

Í framlengingunni byrjuðu heimamenn betur, þeir fóru hins vegar illa að ráði sínu á vítalínunni sem hélt gestinum inn í leiknum. Maciek Baginski kom Njarðvík yfir 87-86 þegar 35 sekúndur voru eftir. Tindstólsmenn fóru í sókn og aftur henti Helgi Freyr Margeirsson niður þirst á ögurstundu og kom gestunum tveimur stigum yfir þegar 22 sekúndur voru eftir. Njarðvíkingar áttu síðustu sóknina, boltinn barst á Kristinn Pálsson í horninu og jafnaði hann leikinn með löngu tveggja stiga skoti, sennilega var táin á þriggja stiga línunni. 89-89 og önnur framlenging. 

Allt var í járnum í annari framlengingunni, liðin skiptust á að leiða og baráttan í algleymingi. Pétur Rúnar Birgisson var kominn út af með fimm villur sem var afar slæmt fyrir gestina. Þeir náðu þriggja stiga forystu þegar ein og half mínúta var eftir. Terrell Vinson fann aukakraft og skoraði fjögur stig í röð fyrir heimamenn og kom Njarðvíkingum yfir. Tindastóll svaraði með tveimur stigum. Maciek Baginski kom sér á vítalínuna þegar 10 sekúndur lifðu leiks og setti bæði vítin niður og kom Njarðvíkingum aftur í forystu. Helgi Freyr Margeirsson átti seinasta skot leiksins fyrir gestina sem gjörsamlega dansaði á hringnum en niður fór boltinn ekki og magnaður sigur Njarðvíkur staðreynd 103-102.

Af hverju vann Njarðvík?

Njarðvík byrjaði leikinn af krafti sem hefur vantað upp á í síðustu leikjum. Náðu upp mikilli baráttu og hreinlega gáfust aldrei upp. Tindstólsmenn voru óheppnir að missa Pétur Rúnar af velli í framlengingunni og það hjálpaði þeim ekki.

Hverjir stóðu upp úr?

Terrell Vinson var öflugur í liði Njarðvíkur en hann skoraði 31 stig. Maciek Baginski var einnig rosalega gríðarlega góður fyrir heimamenn, sérstaklega í fjórða leikhluta og framlengingunum en hann skoraði 24 stig. Logi Gunnarsson átti líka frábæran leik en hann skoraði 24 stig og gaf 10 stoðsendingar. Hjá gestunum var Antonio Hester frábær með 35 stig og 17 fráköst. Pétur Rúnar Birgisson var með glæsilega þrennu en hann var með 20 stig, 12 fráköst og 12 stoðsendingar.

Hvað gekk illa?

Þriggjastiga skot gestanna voru ekki að detta nægjanlega vel í dag en þeir hittu úr 12 af 45 skotum sínum í leiknum.

Tölfræði sem vekur athygli 

Gestirinir tóku 17 sóknarfráköst í kvöld gegn 10 sóknarfráköstum heimamanna, sem gerir sigur heimamann enn frækilegri. Athygli vakti að í fjórða leikhluta voru aðeins fjórir leikmenn komnir á blað fyrir heimamenn.

Hvað gerist næst?

Bæði lið eiga leik á fimmtudagskvöldið. Njarðvík fer austur á Egilsstaði og mætir Hetti en Tindastóll á fá Stjörnuna í heimsókn í Síkið.

Njarðvík-Tindastóll 103-102 (29-14, 11-25, 15-19, 23-20, 11-11, 14-13)

Njarðvík:
Terrell Vinson 31/7 fráköst, Maciek Stanislav Baginski 24/6 fráköst/8 stoðsendingar, Logi Gunnarsson 24/4 fráköst/10 stoðsendingar, Kristinn Pálsson 21/7 fráköst, Ragnar Agust Nathanaelsson 2/8 fráköst, Snjólfur Marel Stefánsson 1/4 fráköst.

Tindastóll: Antonio Hester 35/17 fráköst/3 varin skot, Hannes Ingi Másson 20, Pétur Rúnar Birgisson 18/12 fráköst/12 stoðsendingar, Helgi Freyr Margeirsson 12, Axel Kárason 11/5 fráköst, Chris Davenport 3, Helgi Rafn Viggósson 2, Björgvin Hafþór Ríkharðsson 1.

Daníel Guðni Guðmundsson er þjálfari Njarðvíkur.Vísr/Andri Marinó
Daníel: Sást hvað býr í þessu liði

„Þetta var frábær körfuboltaleikur. Blessunarlega unnum við þennan leik í kvöld,“ sagði Daníel Guðmundsson, þjálfari Njarðvíkur.

„Við byrjum leikinn mjög vel og það er eitthvað sem við verðum að gera. Þeir breyttu bara aðeins um ákefð í vörninni og við urðum undir í öðrum leikhluta. Við byrjuðum leikinn frábærlega en hefðum þurft að halda því betur áfram.“

Hann sagði fráveru Odds Rúnars Kristjánssonar hafa skipt sköpum í Njarðvíkurliðinu.

„Tindastóll er með frábært lið og eru virkilega góðir í körfubolta.“

„Það eru öll lið í topp fjórum sem eru góð og við höfum átt erfiða leiki gegn í vetur. En við þurfum að byggja ofan á því sem við erum búnir að vera að gera.“

„Við vorum mjög slakir á móti Keflavík og baráttulausir, en það sást alveg hér í kvöld hvað býr í þessu liði,“ sagði Daníel Guðmundsson.

Israel Martin, þjálfari Tindastóls.Vísir
Isreal: Bæði lið áttu skilið að vinna

„Þetta var frábær leikur fyrir stuðningsmennina. Var að sjálfsögðu betra fyrir þá heldur en okkur því þeir unnu,“ sagði Isreal Martin, þjálfari Tindastóls, eftir leikinn. „Bæði lið áttu skilið að vinna í kvöld.“

„Deildin heldur áfram og við verðum að vera tilbúnir í næsta leik og í úrslitakeppnina.“

„Ég er ánægður með mitt lið. Það voru lítil smáatriði sem skiptu máli hér í kvöld, þeir voru að skjóta mjög vel fyrir utan þriggja stiga línuna. Við börðumst vel en þeir voru aðeins betri en við í dag.“

Tindastóll byrjaði leikinn mjög illa en náði að vinna sig aftur inn í leikinn.

„Við komum til baka en okkur vantaði smá orku í lokin og heimavöllurinn hjálpaði þeim,“ sagði Isreal Martin.



Maciek: Loksins sýndum við karakter

„Þetta eru bara tvö mjög góð lið og við mættum loksins til leiks. Það er búin að vera slæm umræða um okkur og áhorfandinn átti þetta inni hjá okkur,“ sagði Maciek Baginski eftir ótrúlegan sigur Njarðvíkur.

„Loksins sýndum við karakter. Það er mjög erfitt að vinna leik sem fer í tvær framlengingar en við þurfum að byggja á þessu og klára síðasta leikinn.“

Helgi Freyr hefur sett nokkra þrista í veturvísir/andri marinó
Helgi Freyr: Skutum okkur í fótinn í fyrsta leikhluta

„Þetta var flottur körfuboltaleikur og áhorfendur fengu mikið fyrir peninginn. Það var gaman að sjá hversu margir Tindastólsmenn voru mættir,“ sagði Helgi Freyr Margeirsson eftir leikinn.

Helgi var nálægt því að tryggja Tindastól sigurinn með þriggja stiga körfu á loka sekúndunum en skotið fór ekki niður.

„Mér sýndist boltinn og allavega helmingurinn af áhorfendunum vilja hann ofan í en þetta fer svona stundum.“

„Við skutum okkur í fótinn í fyrsta leikhluta með því að hleypa þeim svona af stað. Svo náum við okkur í gang í öðrum leikhluta og það er ákveðinn vendipunktur hjá okkur þegar Pétur fer út af með fimm villur [Pétur Rúnar Birgisson, aðal leikstjórnandi Tindastóls, fékk sína fimmtu villu í framlengingunni]. Ég hefði viljað sjá Njarðvík fá einhverjar villur í framlengingunni, held þeir fái bara eina villu í öllum fjórða leikhluta og fyrstu framlengingunni,“ sagði Helgi Freyr Margeirsson.

Þrátt fyrir að Njarðvík hafi unnið báða leiki liðanna í deildinni í vetur þá sagði Helgi hann myndi samt setja pening á Tindastól ef liðin mætast í seríu í úrslitakeppninni.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira