Innlent

Ferðir Pawels vöktu athygli á Beauty tips: „Reykvískar mæður geta verið óhræddar“

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Pawel sækist eftir sæti ofarlega á lista Viðreisnar í Reykjavík fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar.
Pawel sækist eftir sæti ofarlega á lista Viðreisnar í Reykjavík fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar. Skjáskot/Snapchat
Ferðir „stórskrýtins gæja“ sem gekk um Grafarvog í dag og tók Snapchat myndbönd af leikskólum vöktu athygli meðlima Facebook hópsins Beauty tips. Hinn stórskrýtni gæi reyndist vera Pawel Bartoszek, fyrrverandi þingmaður Viðreisnar, sem sækist eftir sæti á lista Viðreisnar í Reykjavík fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar. Hann hefur undanfarna daga ferðast um hverfi borgarinnar á hjóli og kynnt sér legu leikskóla í borginni.

„Ég hef verið að stunda það að ganga um bæinn og skoða ýmis atriði,“ segir Pawel í samtali við Vísi. Hann segist til að mynda hafa farið um alla þéttingarreiti borgarinnar.

„Nú er ég með það verkefni að ganga fram hjá öllum leikskólum borgarinnar til að átta mig á legu þeirra. Svo kynnir maður sér aðeins hvað leikskólarnir standa fyrir, hvernig stefnu þeir hafa, og reyni að fjalla um það í stuttum snap sögum.“

Reykjavíkurborg rekur 62 leikskóla og til viðbótar eru 17 sjálfstætt starfandi leikskólar í borginni. Því er alls um að ræða tæplega 80 leikskóla.

„Þetta gengur nú bara vel skal ég segja þér. Ég er búinn með bróðurpart af Vesturbænum og Hlíðum, allt norðan Hringbrautar er komið. Svo var ég að klára Grafarvoginn, Grafarholtið og Úlfarsárdalinn í dag. Næst liggur leið mín upp í Árbæ og Breiðholt. Þá eru bara Fossvogur og suðurhluti Hlíða eftir og svo Kjalarnesið þangað sem ég mun taka strætóferð sem verður rúsínan í pylsuendanum í þessari ferð minni.“

Ekkert sem heitir „bad publicity“

Pawel tilkynnti fyrir um tveimur vikum síðan að hann sækist eftir sæti ofarlega á lista Viðreisnar fyrir komandi borgarstjórnarkosningar.

„Þetta er liður í því. Þetta er leið mín til að kynnast borgarlandinu. Talandi nú ekki um það að kynnast menntakerfinu,“ segir Pawel.

„Ég geri þetta allt á hjóli og það er svona líka útaf því að stundum þegar maður er að skoða sérstaklega aðbúnaðinn í kringum skóla þá náttúrulega eru mikið af krökkum að fara labbandi þá er oft gott að sjá hvernig hlutirnir liggja. Til dæmis þegar verið er að sameina skóla, meikar það sens út frá því hvernig þeir liggja. Meikar það sens út frá gönguleiðum barnanna.“

Umræða um ferðir „stórskrýtins gæja“ um Grafarvog spratt upp í Facebook hópnum Beauty tips fyrr í dag og segist Pawel hafa fengið veður af þeirri umræðu.

„Ég var búinn að fá smjörþefinn af þessu. Það er svona eins og það er. Það er stundum sagt að það sé ekkert sem heitir bad publicity sko en takmarkið er ekki að hrella neinn,“ segir Pawel.

„Reykvískar mæður geta verið óhræddar um það að það sé ekkert annað á ferðinni.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×