Fótbolti

Ronaldo jafnaði met og er að stinga Messi af í Meistaradeildinni

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Markahrókur mikill.
Markahrókur mikill. vísir/getty
Cristiano Ronaldo skoraði annað tveggja marka Real Madrid á Prinsavöllum í París í gærkvöldi þegar að liðið vann Paris Saint-Germain, 2-1, og komst tiltölulega þægilega áfram í átta liða úrslit Meistaradeildar Evrópu í fótbolta.

Evrópumeistarar síðustu tveggja ára unnu fyrri leikinn, 3-1, og einvígið samanlagt, 5-2, en með markinu sem Ronaldo skoraði jafnaði hann fimmtán ára gamalt met hollenska markahróksins Ruuds van Nistelrooy, fyrrverandi leikmanns Manchester United.

Ronaldo var nefnilega að skora í tólfta Meistaradeildarleiknum í röð, en hann er nú búinn að skora í hverjum einasta leik síðan að hann skoraði í undanúrslitunum gegn Juventus á síðasta ári.

Portúgalinn gerði meira að segja enn betur en Nistelrooy og er búinn að skora fjórtán mörk í þessum tólf leikjum en Hollendingurinn skoraði tólf mörk í jafnmörgum leikjum þegar að hann setti metið árið 2003.

Markaskor Cristiano Ronaldo í Meistaradeildinni er hreint með ólíkindum en hann hefur nú skorað 117 mörk í þessari sterkustu deild heims, þar af 102 í 96 leikjum fyrir Real Madrid.

Hann er búinn að skora 19 mörkum meira en Lionel Messi í Meistaradeildinni, en það eru mörkin í útsláttarkeppni Meistaradeildarinnar sem gera hann líklega að besta leikmanni hennar frá upphafi.

Ronaldo er nefnilega búinn að skora 57 mörk í útsláttarkeppninni en Lionel Messi aðeins 38. Næsti maður er svo Thomas Müller með 21 mark í útsláttarkeppninni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×