Körfubolti

Jóhann Þór: Frammistaðan ekkert til að hrópa húrra yfir

Smári Jökull Jónsson skrifar
Jóhann Þór Ólafsson, þjálfari Grindavíkur.
Jóhann Þór Ólafsson, þjálfari Grindavíkur. vísir/ernir
Jóhann Þór Ólafsson sagði sigurinn það sem skipti máli eftir leikinn gegn Þór frá Akureyri í kvöld en var ekkert alltof sáttur með frammistöðu síns liðs.

„Hún var gloppótt. Við vorum í vandræðum sóknarlega, þeir voru í svæðisvörn og við hittum illa. En þetta er sigur og það er það sem við tökum út úr þessu. Frammistaðan ekkert sérstök en góður sigur,“ sagði Jóhann við Vísi að leik loknum.

Grindvíkingar mæta Tindastóli í 8-liða úrslitum en Stólarnir enduðu í 3.sæti deildarinnar og Grindavík í 6.sætinu. Jóhann sagðist ekkert vera búinn að velta væntanlegri viðureign fyrir sér.

„Það er ekkert betra eða verra en neitt annað. Ég ætla bara aðeins að draga andann, fara á hestbak og ríða út um helgina. Svo tökum við stöðuna á sunnudag og gerum okkur klára fyrir það verkefni.“

Sigur Grindavíkur í kvöld var sá fjórði í röð og þeir mæta því með ágætis sjálfstraust í erfiða viðureign í 8-liða úrslitunum.

„Það er búið að vera þokkalegur sláttur á þessu síðustu vikur. Frammistaðan í kvöld er ekkert til að hrópa húrra yfir en við vitum alveg hvað við getum og vitum líka hvað við getum verið lélegir. Við þurfum að finna þetta „groove“ og þessa gleði,“ sagði Jóhann Þór við Vísi að lokum.

 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×