Innlent

Birta yfirlit úr dagbókum sínum frá og með deginum í dag

Ingvar Þór Björnsson skrifar
Það verður háð mati hvers og eins ráðherra hversu miklar upplýsingar verða birtar um dagskrá hverrar viku.
Það verður háð mati hvers og eins ráðherra hversu miklar upplýsingar verða birtar um dagskrá hverrar viku. Vísir/EÁ
Á ríkisstjórnarfundi í morgun var ákveðið að allir ráðherrar ríkisstjórnarinnar birti yfirlit úr dagbókum sínum frá og með deginum í dag. Við undirbúning málsins var leitað fyrirmynda hjá Norðurlöndum og í Bretlandi. Þetta kemur fram á vef Stjórnarráðsins.

Jafnframt kemur fram að það sé háð mati hvers og eins ráðherra hversu miklar upplýsingar verða birtar um dagskrá hverrar viku. Gert er ráð fyrir að upplýsingar birtist til að mynda um formlega fundi sem boðað er til með dagskrá eða þar sem ráðherra tekur á móti fulltrúum félagasamtaka og stofnana, formlega hádegisverði, viðburði þar sem ráðherra heldur erindi eða ávarp, fundi með fulltrúum erlendra ríkja og stærri viðtöl við fjölmiðla sem ákveðin eru með nokkrum fyrirvara.

Dagbækurnar má finna á undirsíðu undir hverjum og einum ráðherra á vef Stjórnarráðsins. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur nú þegar birt yfirlit yfir dagskrá vikunnar sem er að líða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×