Innlent

600 þúsund krónur í aksturskostnað í janúarmánuði

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Ásmundur Friðriksson
Ásmundur Friðriksson Vísir/Vilhelm

Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, fékk greiddar 599.720 krónur vegna ferða á eigin bíl fyrir janúar á þessu ári. Upplýsingar um breytilegar kostnaðargreiðslur til þingmanna birtust í dag á vef Alþingis.

Ferðakostnaður ráðherra er ekki birtur á vef Alþingis en slíkur kostnaður er greiddur af viðkomandi ráðuneyti.

Þar segir að einhverjir reikningar fyrir útgjöld síðari hluta árs 2017 kunni að hafa borist í janúar 2018 og ef svo sé bókist þeir á þann mánuð. 

Sjálfur segir Ásmundur á Facebook að kostnaður sinn vegna janúar hafi verið um 200 þúsund krónur. 400 þúsund krónurnar séu því ógreiddir reikningar fyrir akstur árið 2017.

6.182 kílómetrar

Ofan á tæpar 600 þúsund krónur fyrir ferðir á eigin bíl fékk Ásmundur 119.961 krónu í dagpeninga og 173.920 krónur vegna flugferða vegna ferðakostnaðar utan lands.

Alls fékk Ásmundur því tæpar 900 þúsund krónur endurgreiddar vegna ferðakostnaðar.

Alþingismenn fá greiddar um 97 krónur fyrir hvern kílómetra og samkvæmt því hefur Ásmundur keyrt 6.182,68 kílómetra í janúar.

Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, fékk 472.340 krónur endurgreiddar vegna ferða á eigin bíl í janúar. Þá fékk hún samtals 164783 krónur vegna ferðakostnaðar utanlands.

Í samtali við Fréttablaðið segist Oddný hafa kvartað undan þeim upplýsingum sem koma þar fram við skrifstofu Alþingis vegna þess að hún hafi ekki rukkað fyrir akstur það sem af er ári.

Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, fékk alls 354.144 krónur endurgreiddar vegna ferðakostnaðar innanlands í janúar, 293.886 krónur vegna flugferða og 60.258 krónur vegna bílaleigubíla.

Haraldur Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, fékk einnig töluverða upphæð endurgreidda vegna ferða á eigin bíl í janúar, eða 248.160 krónur. Vilhjálmur Árnason, flokksbróðir Haraldar og Ásmundar fékk 207.570 krónur í janúar fyrir ferðir á eigin bíl. Vilhjálmur er einn þeirra sem fékk hvað mest endurgreitt vegna aksturskostnaðar á síðasta ári, eða 2.457.234 krónur. Sá eini sem fékk meira en Vilhjálmur var Ásmundur, með 4.627.144 krónur.

Kostnaðargreiðslur verða framvegis birtar 25. hvers mánaðar fyrir undangenginn mánuð. Fyrirhugað er að birta sem allra fyrst upplýsingar um kostnaðargreiðslur um áratug aftur í tímann og verður miðað við birtingu frá alþingiskosningum 2007.

Ekki náðist í Ásmund Friðriksson við vinnslu fréttarinnar.

Fréttin var síðast uppfærð klukkan 23:34 eftir að Ásmundur sagðist hafa fengið 200 þúsund krónur fyrir janúar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×