Fótbolti

Semedo handtekinn fyrir mannrán

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Semedo er hér að elta Lionel Messi í leik í desember.
Semedo er hér að elta Lionel Messi í leik í desember. vísir/getty
Ein helsta vonarstjarna Portúgala í fótboltanum, Ruben Semedo, er á einhverri undarlegri vegferð í lífinu en hann situr nú í fangelsi grunaður um mannrán.

Hinn 23 ára gamli Semedo var handtekinn í gær ásamt tveimur félögum sínum. Þeir eru sakaðir um að hafa rænt manni og haldið honum föngnum.

Á meðan þeir héldu manninum eru Semedo og félagar sagðir hafa rænt heimili hans og nælt sér í efni til þess að kúga út úr honum fé.

Semedo var síðast handtekinn í desember er hann hótaði barþjóni með byssu. Það tók barþjóninn langan tíma að koma Semedo út af barnum er hann lokaði. Þegar búið var að þrífa og barþjónninn fór út í bílinn sinn rauk Semedo að honum með byssu. Hann hefði beðið eftir að barþjónninn kæmi út.

Semedo hótaði barþjóninum öllu illu og sagðist ætla að ganga frá honum ef hann myndi kæra sig. Barþjónninn fór ekki eftir því og kærði varnarmanninn.

Í október á síðasta ári var Semedo kærður fyrir líkamsárás er hann braut glas á höfði manns á næturklúbbi.

Varnarmaðurinn er á sínu fyrsta ári hjá spænska félaginu Villarreal en félagið greiddi Sporting 14 milljónir evra fyrir hann síðasta sumar. Hann hefur spilað fjóra landsleiki fyrir Portúgal.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×