Sport

Banni Rússa aflétt

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Rússar fá að keppa aftur undir rússneska fánanaum í Beijing 2022
Rússar fá að keppa aftur undir rússneska fánanaum í Beijing 2022 vísir/ap
Alþjóðaólympíunefndin hefur ákveðið að aflétta ólympíubanni Rússa eftir leikana í Pyeongchang ef engin fleiri tilfelli um ólöglega lyfjanotkun koma upp.

Rússar máttu ekki keppa í Suður Kóreu eftir að upp komst um ríkisstudda lyfjamisnotkun á leikunum í Sochi 2014. Hins vegar fengu 168 rússneskir íþróttamenn sem gátu sannað að þeir hefðu aldrei brotið lyfjareglur að keppa í Pyeongchang undir ólympíska fánanum sem Ólympíufarar frá Rússlandi.

Tveir þessara íþróttamanna hafa nú þegar fallið á lyfjaprófum í kringum leikana. Alexander Krushelnitsky þurfti að skila bronsverðlaunum sínum í krullu eftir að hann féll á lyfjaprófi og Nadezhda Sergeeva, sem keppir á bobbsleða, var sett í bann í gær.

Rússar vildu fá að labba undir sínum eigin fána á lokahátíðinni en fá það ekki.

„Þessi tvö mál valda okkur miklum vonbrigðum og komu í veg fyrir að við gætum lyft banninu fyrir lokahátíðina. Hins vegar bendir ekkert til þess að rússneska ólympíunefndin tengist þessum málum og ekkert sem kveikir grun um skipulagða misnotkun,“ sagði Thomas Bach, forseti Alþjóðaólympíunefndarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×