Umfjöllun og viðtöl: Grindavík - Njarðvík 89-92 │ Njarðvíkursigur í spennutrylli

Smári Jökull Jónsson skrifar
Dagur Kár Jónsson er einn af lykilmönnum Grindavíkur
Dagur Kár Jónsson er einn af lykilmönnum Grindavíkur Vísir/Anton
Njarðvíkingar unnu sætan sigur á nágrönnum sínum í Grindavík á heimavelli þeirra síðarnefndu í kvöld. Heimamenn leiddu nær allan leikinn en Njarðvíkingar fóru fram úr á lokamínútunum og tryggðu sér sætan þriggja stiga sigur, 92-89.

Fyrri hálfleikur var mjög hraður og leikmenn að hitta afar vel. Grindvíkingar voru yfirleitt skrefinu á undan en Njarðvík aldrei langt á eftir. Eftir fyrsta leikhlutann var staðan 31-31 og ljóst að varnir beggja liða voru í einhverjum feluleik.

Svipað var uppi á teningunum í öðrum leikhluta. Liðin skoruðu mikið og staðan í hálfleik var 55-50 heimamönnum í vil.

Þjálfarar beggja liða virðast aðeins hafa náð að fara yfir varnirnar í hálfleik. Stigaskorið var aðeins minna en leikurinn áfram jafn og spennandi. Heimamenn héldu yfirhöndinni og komust mest 8-9 stigum yfir en alltaf komu gestirnir til baka.

Fyrir lokafjórðunginn leiddu heimamenn 75-74 og spennan í algleymingi. Grindavík komst í 85-79 en Njarðvík skoraði þá 11 stig gegn 4 og komst í 90-89. Síðustu mínúturnar voru æsispennandi. Heimamenn fóru fremur illa að ráði sínu í sókninni og gestirnir náðu stoppum í vörninni.

Þegar 18 sekúndur voru eftir skoraði Ragnar Nathanealsson úr einu vítaskoti og Grindavík hélt í sókn í stöðunni 91-89. Dagur Kár Jónsson fékk opið þriggja stiga skot þegar 5 sekúndur voru eftir. Það fór ekki ofan í, gestirnir hirtu frákastið og heimamenn náðu ekki að brjóta fyrr en 0,83 sekúndur voru á klukkunni.

Terrell Vinson skoraði úr seinna vítinu og gaf heimamönnum því einn séns á að jafna. Það var ekki langt frá því að Grindvíkingar nýttu þann séns. Ólafur Ólafsson fékk skot töluvert utan við teiginn sem skoppaði af hringnum og Njarðvíkingar fögnuðu afar sætum sigri.

Af hverju vann Njarðvík?

Leikurinn var gríðarlega jafn og spennandi og það voru smáatriði sem urðu til þess að það voru gestirnir sem fögnuðu en ekki heimamenn. Grindvíkingar naga sig sjálfsagt í handarbökin því þeir leiddu nær allan tímann og höfðu alla möguleika á því að fara með sigur af hólmi í kvöld en voru örlitlir klaufar á lokamínútunum.

Terrell Vinson var öflugur hjá gestunum og tók af skarið þegar á þurfti og vörn Njarðvíkinga náði í mikilvæg stopp sömuleiðis.

Þessir stóðu upp úr:

Vinson var öflugur hjá Njarðvík, skoraði 27 stig og tók 13 fráköst. Oddur Rúnar var góður sömuleiðis og raðaði niður þristum í upphafi leiks. Þá er Ragnar Nathanealsson alltaf að komast í betra form og var með 13 stig og 12 fráköst.

Hjá Grindavík átti Ólafur fína kafla en honum var hent á bekkinn fyrir leikinn en kom sterkur þaðan og skoraði 18 stig. J´Nathan Bullock átti ágætan leik sömuleiðis en Njarðvíkingar tóku hart á honum og hann átti stundum í basli inni í teignum gegn Ragnari og Vinson.

Hvað gekk illa?

Varnir beggja liða voru fjarverandi í fyrri hálfleik og þá sérstaklega í fyrsta leikhluta. Reyndar voru bæði lið að setja niður stór skot og þá sérstaklega gestirnir en það sást á þjálfurum beggja liða að þeir voru langt frá því að vera sáttir með varnarleik sinna manna.

Grindavík leiddi meirihluta leiksins, komst mest 10 stigum yfir en gekk illa að taka síðasta skrefið og skilja Njarðvíkinga eftir. Gestirnir klóruðu sig alltaf aftur inn í leikinn og það skilaði sigri í lokin.

Hvað gerist næst?

Grindavík á gríðarlega mikilvægan leik á fimmtudag gegn Stjörnunni í Garðabæ. Stjarnan fór tveimur stigum fram úr Grindvíkingum með sigri í kvöld og því annar fjögurra stiga leikur framundan fyrir Suðurnesjamenn.

Njarðvík fær sterkt lið Hauka í heimsókn í Ljónagryfjuna á föstudag og það verður áhugaverð viðureign. Ætli Njarðvík sér að gera alvöru atlögu að efstu fjórum sætunum þurfa þeir að senda alvöru skilaboð með sigri á föstudag.

Jóhann Þór: Komið út fyrir velsæmismörk þegar dómari er kominn í „trash talk" við leikmenn
Jóhann Þór Ólafsson, þjálfari Grindavíkur.Vísir/Ernir
Jóhann Þór Ólafsson þjálfari Grindavíkur var gríðarlega svekktur eftir naumt tap gegn Njarðvík í Dominos-deildinni í kvöld, í leik sem hans menn leiddu nær allan tímann.

„Þetta var einn af þessum leikjum þar sem þetta snýst um eina sókn til eða frá og það datt ekki okkar megin. Við vorum svolitllir klaufar í sókninni en við lögðum mikið í leikinn og þar af leiðandi er þetta mjög svekkjandi,“ sagði Jóhann í samtali við Vísi að leik loknum í kvöld.

Strax eftir leikinn átti Jóhann Þór í hrókasamræðum við dómara leiksins og virtist ekki sáttur með þá Kristin Óskarsson, Rögnvald Hreiðarsson og Jóhann Guðmundsson.

„Þetta var ekkert sem ræður úrslitum en þegar dómarar, eða einn af þremur, er farinn að vera með stæla og svokallað „trash talk“ við leikmenn þá er það komið út fyrir öll velsæmismörk og á ekki að sjást. Það er eitthvað sem ég ræð ekki við og er orð á móti orði,“ sagði Jóhann og hélt áfram.

„Svo voru einhverjir dómarar í lokin sem ég var ósáttur við en við vorum kannski ekki nógu sterkir sjálfir. Fyrst og fremst er ég mjög svekktur, við leiddum allan tímann en vorum aldrei með þetta. Þetta er hundfúlt.“

Njarðvík fer með sigrinum fjórum stigum fram úr Grindvíkingum og eru þar að auki með betri árangur í innbyrðisviðureignum liðanna eftir tvo sigra í vetur.

„Ég veit ekkert hvernig taflan lítur út. Við eigum leik á fimmtudag og það er bara áfram gakk. Við þurfum að halda áfram að laga okkar leik, við bættum okkur frá því síðast og það er jákvætt. Maður er bara fúll,“ sagði Jóhann að lokum.

Daníel Guðni: Þetta var ljótt
Daníel Guðmundsson, þjálfari Njarðvíkur.Vísir/Ernir
„Það var ljótur varnarleikur hjá báðum liðum, sérstaklega hjá okkur. Við sýndum mikinn karakter með því að koma til baka eftir erfiðan fyrri hálfleik og klára leikinn. Ég verð eiginlega að koma með klisju og segja að þetta hafi verið liðssigur,“ sagði Daníel Guðni Guðmundsson þjálfari Njarðvíkur eftir sigurinn á Grindavík í kvöld.

„Allir sem komu af bekknum gerðu sitt og við byrjuðum að spila vörn í seinni hálfleik sem gaf okkur eitthvað. Svo settum við stórar körfur og fengum stopp á móti. Þetta var ljótt, þeir klikkuðu á skotum sem þeir vanalega setja ofan í og það var ekkert eitt sem skar úr um þetta. Blessunarlega unnum við.“

Sigur Njarðvíkinga var gríðarlega mikilvægur því þeir skilja Grindavík eftir fjórum stigum fyrir aftan sig og eru þar að auki með betri árangur í innbyrðisviðureignum.

„Þetta var rosalega mikilvægur leikur fyrir bæði lið. Ég er mjög ánægður að hafa tekið svona lykilleik og það kemur okkur í nokkuð góða stöðu í 5.sætinu og við getum kannski farið að gæla við 4.sætið. Ef allt klikkar hjá liðunum í 3. og 4.sæti og allt gengur upp hjá okkur þá getum við gert atlögu,“ sagði Daníel Guðni að lokum í samtali við Vísi.

Ragnar: Menn eru brjálaðir eftir leiki
Logi Gunnarsson er fyrirliði Njarðvíkur.vísir/eyþór
Ragnar Nathanealsson miðherji Njarðvíkur var vitaskuld ánægður í leikslok þegar Vísir ræddi við hann. Hversu sætur var þessi sigur á skalanum 1-10?

„Þetta var alveg 10,5. Þetta var auðvitað Suðurnesjaslagur og við erum í þannig stöðu í deildinni og í þannig prógrammi að við verðum að mæta í hvern leik sem eftir er eins og það sé leikur í úrslitakeppninni,“ sagði Ragnar í samtali við Vísi eftir leik og bætti við að ummæli leikmanns Grindavíkur hefði kveikt í leikmönnum Njarðvíkur.

„Það var ákveðinn einstaklingur í Grindavíkurliðinu sem sagði að þeir væru miklu betri en við. Við erum 3-0 gegn þeim í vetur og ég er virkilega stoltur af okkur öllum að hafa klárað þetta,“ bætti Ragnar við.

Var mikið „trash talk“ í gangi á milli leikmanna í leiknum?

„Aðallega þegar Óli setti einn ógeðslegan í grillið á mér. Þeir þekkjast miklu betur en ég og hafa spilað mikið saman og þá láta allir heyra í sér. Menn sýna ástríðu og það er það sem er gaman við þessa Suðurnesjaslagi að mönnum er ekkert sama. Menn eru brjálaðir eftir leiki.“

Ragnar hefur verið að finna sig betur að undanförnu eftir fremur erfiða byrjun í Njarðvíkurbúningnum.

„Maður verður að halda áfram að byggja ofan á þetta og það er bara áfram gakk. Svo vil ég minnast á Vigdísi Vilhjálmsdóttur, nýjasta Njarðvíkinginn okkar,“ sagði Ragnar að lokum.

Dagur Kár: Þetta var opið skot, ég skaut og hitti ekki
Jóhann Ólafsson les sínum mönnum pistilinn.vísir/andri marinó
Dagur Kár Jónsson bakvörður Grindavíkur fékk tækifæri til að tryggja Grindvíkingum sigur þegar nokkrar sekúndur voru eftir en þriggja stiga skot hans geigaði.

„Þetta var opið skot, ég skaut og hitti ekki. Það þýðir ekkert annað en að halda áfram. Við spiluðum betur en þeir í 35 mínútur og svo fór allt sem gat farið illa síðustu mínúturnar. Virkilega svekkjandi en það er bara áfram gakk,“ sagði Dagur í samtali við Vísi eftir leik.

Varnir liðanna voru ekki öflugar í fyrri hálfleik enda var mikið skorað og leikurinn hraður og skotin að detta niður.

„Við vorum mjög góðir sóknarlega, fengum opin skot þegar við vildum, hreyfðum boltann vel og það voru allir að skjóta og skora. Vörnin var oft á tíðum mjög fín, þeir settu niður erfið skot og við vorum ekki að missa þá oft alveg framhjá okkur.“

Grindavík situr nú eftir í 7.sætinu og á afar mikilvægan leik framundan gegn Stjörnunni á fimmtudag.

„Ég veit ekki hvar við erum í deildinni og ég er ekkert að skoða þetta. Ég einbeiti mér meira að spilamennskunni okkar. Ef við byggjum á þessum 35 mínútum í dag þá erum við að fara að verða betri. Þetta er jöfn deild og það skiptir engu máli hverja við fáum í fyrstu umferð í úrslitakeppninni, það verður alltaf gott lið. Spilamennskan er það sem við erum að hugsa um,“ sagði Dagur Kár að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira