Umfjöllunn og viðtöl: Valur - ÍR 77-83 │ ÍR aftur á sigurbraut

Stefán Árni Pálsson skrifar
Ryan Taylor átti fínan leik í kvöld.
Ryan Taylor átti fínan leik í kvöld. Vísir/Eyþór
ÍR-ingar unnu frábæran og mikilvægan sigur á Val, 83-77, í Dominos-deild karla í körfubolta í kvöld.

Leikurinn fór fram í Valsheimilinu og var í raun spennandi frá fyrstu mínútu. Töluverð meiðsli voru í liði ÍR í kvöld og var leikstjórnandinn Matthías Orri Sigurðsson ekki með liðinu í kvöld vegna meiðsla á ökkla.

Liðið var sterkara undir lok leiksins og sterkari andlega. ÍR-ingar eiga enn möguleika á því að verða Deildarmeistarar og þurfa sannarlega á Matthíasi að halda á lokasprettinum. Valsmenn þurfa að halda sæti sínu í deildinni og þá á liðið jafnvel framtíðina fyrir sér í Dominos-deildinni.

Af hverju vann ÍR?

Liðið hitti betur þegar á reyndi og settu leikmenn ÍR niður mikilvæg skot á mikilvægum augnablikum. Valsmenn fengu sín færi og tækifæri til að fara langt með leikinn en því miður fyrir þá, fóru þau tækifæri út um gluggann. ÍR-ingar þekktu það bara betur að loka svona leikjum. Valsmenn hafa of oft misst góða stöðu í tap á þessu tímabili.

Hverjir stóðu upp úr?

Kristinn Marínósson, Hákon Örn Hjálmarsson, Danero Thomas og Ryan Taylor báru uppi sóknarleik ÍR. Þeir Hákon og Kristinn þurftu að standa fyrir sínu og stíga upp í kvöld. Það gerðu þeir og gerðu vel. Thomas og Taylor hafa spilað betur en skiluðu sínu.  

Hvað gekk illa?

Ákvörðunartökur Valsmanna oft í leiknum voru ekki nægilega góðar. Það vantar stundum smá ró og yfirvegun í leik Valsmanna og það er mikilvægt að hafa á ögurstundu. Sóknarleikurinn hjá báðum liðum hefur oft verið betri.

Hvað er framundan?

ÍR-ingar eru í bullandi baráttu um efsta sætið í Dominos-deildinni oggætu tekið deildarmeistaratitilinn ef vel fer. Valsmenn þurfa núna að einbeita sér að halda sæti sínu í deildinni. Sæti í úrslitakeppninni er farið.

Valur-ÍR 77-83 (20-20, 21-24, 22-22, 14-17)

Valur
: Urald King 25/19 fráköst/5 varin skot, Austin Magnus Bracey 13/4 fráköst, Gunnar Ingi Harðarson 13/5 fráköst/5 stoðsendingar, Illugi Steingrímsson 9, Birgir Björn Pétursson 9, Benedikt Blöndal 8/4 fráköst, Sigurður Dagur Sturluson 0/4 fráköst, Oddur Birnir Pétursson 0, Sigurður Páll Stefánsson 0, Illugi Auðunsson 0, Þorgeir Kristinn Blöndal 0, Elías Kristjánsson 0.

ÍR: Kristinn Marinósson 17, Danero Thomas 15/8 fráköst/5 stolnir, Ryan Taylor 15/7 fráköst, Hákon Örn Hjálmarsson 15, Sæþór Elmar Kristjánsson 8/6 fráköst/3 varin skot, Sigurkarl Róbert Jóhannesson 6, Trausti Eiríksson 5, Sveinbjörn Claessen 2/5 fráköst, Haraldur Bjarni Davíðsson 0, Ísak Máni Wíum 0, Skúli Kristjánsson 0, Einar Gísli Gíslason 0.

Borce: Það er pungur í þessum strákum
Borce Ilievski, þjálfari ÍR.Vísir/Ernir
„Ég er virkilega ánægður með þennan sigur, sérstaklega eftir að hafa þurft að spila án lykilleikmanna, “ segir Borce Ilievski, þjálfari ÍR, eftir sigurinn í kvöld. Matthías Orri Sigurðsson og Daði Berg Grétarsson voru báðir frá vegna meiðsla í kvöld.

„Danero var einnig tæpur vegna meiðsla og munaði litlu að hann myndir ekki taka þátt í kvöld. Það er alvöru pungur í þessum strákum og þeir sýndu það í kvöld.“

Borce segir að allir sigurleikir séu mikilvægir en sumir gera meira fyrir liðið en aðrir.

„Ég var mjög spenntur fyrir þessum leik og við þurftum að hefna fyrir tapið í Breiðholtinu. Markmiðið var að halda King og Bracey í undir 40 stigum og það gekk vel. Þessi sigur er mjög mikilvægur til að koma liðinu aftur á sigurbraut.“

Ágúst: Þeir eru að klára svona leiki, ekki við„Þetta er bara eitt skot, til eða frá,“ segir Ágúst Björgvinsson, þjálfari Vals, eftir tapið.

„Þeir hitta úr opnum þristum og við klikkum úr opnum þristum. Það munar engu á liðunum í kvöld en grátlegt hvað við erum búnir að spila vel í allan vetur en erum ekki að klára þessa leiki. Við verðum bara að halda áfram að hugsa um okkar frammistöðu og bæta okkar leik.“

Hann segir að munurinn á liðunum í kvöld er að ÍR-ingar kunna að klára svona leiki.

„Þeir hafa klárað 5-6 svona jafna leiki á meðan við erum að tapa 5-6 svona leikjum. Við þurfum bara að setja niður stóru skotin og lykilaugnablikum. Það er algjört lykilatriði. Núna er vonin um úrslitakeppnina alveg farin og við ætlum bara að tryggja sæti okkar í deildinni. Það var alltaf markmiðið að halda sæti okkar í deild þeirra bestu.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira