Umfjöllun og viðtöl: KR - Keflavík 65-72 | Keflvíkingar tóku tvö stig úr Vesturbænum

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Jón Arnór Stefánsson.
Jón Arnór Stefánsson. Vísir/Hanna
Eftir að hafa tapað fyrir botnliði deildarinnar á heimavelli í síðustu umferð mættu Keflvíkingar í Vesturbæinn og tróðu efasemdarraddirnar niður með hörkusigri á Íslandsmeisturum KR.

Fyrstu mínúturnar gáfu strax tóninn, hörku varnarleikur og lítið skor átti eftir að vera saga leiksins. Bæði lið skoruðu aðeins 32 stig í fyrri hálfleik.

Seinni hálfleikur var bara meira af því sama og sá fyrri. Liðin börðust bæði mjög hart og hefur stál í stál sjaldan átt betur við. Lokatölur í leiknum urðu 65-72 fyrir Keflavík sem fór langt með að tryggja sæti sitt í úrslitakeppninni með sigrinum.

Afhverju vann Keflavík?

Hörku varnarleikur skilaði úrslitunum hér í kvöld. KR er búið að vera á miklu skriði undan farið og í síðustu leikjum hafa Vesturbæingar skorað í kringum 100 stigin. Keflvíkingar héldu þeim í 65 stigum á eigin heimavelli.

Keflvíkingar höfðu mikið að sanna eftir að hafa verið mikið í umræðunni í vikunni og mættu tilbúnir í orustuna hér í kvöld og það skilaði þeim sterkum sigri.

Hverjir stóðu upp úr?

Bandaríkjamaðurinn Christian Jones átti virkilega flottan leik. Hann varði skot hér og þar, henti í tvær, þrjár troðslur og spilaði varnarleikinn vel. Svo var Hörður Axel Vilhjálmsson líka í gír og Ragnar Örn Bragason átti fína innkomu af bekknum.

Hjá KR var það „geitin“ Jón Arnór Stefánsson sem steig upp þegar KR-ingar þurftu þess sem mest og Brynjar Þór Björnsson fann þristana sína undir lok leiksins.

Hvað gekk illa?

Sóknarleikurinn var vandamál hjá báðum liðum, en það var þó meira áberandi hjá heimamönnum. Þeir settu ekki niður þriggja stiga skot fyrr en 24 mínútur voru liðnar af leiknum og þeir búnir að eiga 15 tilraunir. Með menn eins og áður nefndan Brynjar Þór innanborðs í liðinu er það ekki eitthvað sem menn eiga að venjast.

Hvað gerist næst?

Keflvíkingar eru komnir í landsleikjahlé. KR á hins vegar leik gegn Haukum á sunnudaginn, en það er frestaður leikur úr 18. umferðinni. Úrslit umferðarinnar þýða að KR er nú tveimur stigum á eftir toppliðunum Haukum, ÍR og Tindastól svo þeir röndóttu þurfa að sigra þann leik til að halda sér á toppnum.

Friðrik Ingi var sáttur í leikslokvísir/ernir
Friðrik: Hópurinn tilbúinn að leggja sig fram

„Ég hugsa að ansi fáir hafi haft trú á þessu, nema kannski bara við sjálfir,“ sagði Friðrik Ingi Rúnarsson, þjálfari Keflavíkur, eftir leikinn þegar blaðamaður viðurkenndi að hafa ekki séð þessi úrslit fyrir.

„Við sýndum það frá upphafi að það var virkileg trú í mannskapnum. Við vissum að við myndum misnota einhver skot en við reyndum að undirbúa okkur í að fara bara í það næsta sem skiptir máli. Mér fannst við sýna það að hópurinn var tilbúinn í að leggja sig fram og gera þetta saman og gefa okkur tækifæri á því að fara héðan með sigur.“

Keflavík spilaði eins og áður sagði hörku varnarleik og verður það að teljast afrek að halda KR-ingum í 65 stigum á þeirra eigin heimavelli.

„Þetta er frábært lið og búið að vera með sama kjarnann og lykilmenn í mörg, mörg ár. Ég er búinn að berjast við þá ansi oft núna á síðustu árum og ég veit að það þurfa ákveðnir hlutir að ganga upp til þess að hafa betur gegn KR og ég get varla hrósað mínu liði nógu mikið fyrir stórkostlegt hugarfar og frábæra varnarvinnu,“ sagði Friðrik Ingi Rúnarsson.

Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari KR.Vísir/Anton
Finnur: Ódýr afsökun að kenna tapinu á lélega hittni

„Helvíti margt,“ sagði Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari KR, aðspurður hvað fór úrskeiðis í kvöld. „Við komum full værukærir til leiks og fundum ekki auðveldar leiðir. Þegar við fundum leiðirnar þá fórum við ekki nógu vel frá þeim.“

„Allt í einu erum við komnir undir og þá kom smá örvænting og því fór sem fór.“

Hann vildi þó ekki viðurkenna að leikurinn hafi tapast á lélegri sóknarnýtingu.

„Við vorum að búa til fín skot fyrir utan í fyrri hálfleiknum og allan leikinn en það er ódýr afsökun að segja að við töpuðum afþví við hittum ekki.“

„Um það snýst þessi leikur og það er langt síðan við hittum svona illa. Aðal atriðið er þó að mér fannst við bregðast illa við mótlætinu.“

Aðspurður hvort þeir hafi vanmeitið Keflavík sagði Finnur svo ekki vera.

„Við vorum að spila við nánast sama lið í hörku viðureign í fyrra þannig ég held það hafi allavega ekki verið af minni hálfu og vonandi ekki leikmannanna. Kannski var eitthvað innst inni, það er leikur strax á sunnudaginn svo kannski ætluðu menn létt í gegnum þetta en við létum grípa okkur í bólinu,“ sagði Finnur Freyr Stefánsson.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira