Neytendur

Plataði kunningja sem sat uppi með reikning frá öllum smá­lána­fyrir­tækjunum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Auðvelt er að fá lánaðan pening hjá smálánafyrirtækjunum. Öllu erfiðara er að greiða til baka.
Auðvelt er að fá lánaðan pening hjá smálánafyrirtækjunum. Öllu erfiðara er að greiða til baka. Vísir/Valli
Neytendasamtökin hafa fengið á sitt borð mál þar sem maður var beðinn um að millifæra pening á gamlan vin. Á einhvern óskiljanlegan hátt endaði maðurinn á að taka smálán. Þetta kemur fram á vef Neytendasamtakanna þar sem fram kemur að málinu hafi verið vísað áfram til lögreglu.

Fórnarlambið í málinu fékk skilaboð seint um nótt þar sem gamall kunningi sagðist vera í vandræðum. Kunninginn væri í útlöndum og biði eftir millifærslu frá kærustunni en vegna einhverra tæknivandamála bærist millifærslan ekki. Hann spurði því hvort kærastan mætti millifæra 100.000 krónur á manninn sem hann gæti millifært áfram á kunningjann.

Tregur til en lét segjast

Neytendasamtökin hafa eftir manninum að hann hafi verið tregur til en samþykkt að lokum, gefið kunningjanum kennitölu sína og reikningsnúmer. Smálán hafi svo birst á heimabanka mannsins án skýringar í nokkrum færslum. Maðurinn millifærði strax upphæðina áfram á kunningja sinn.

Það var síðan daginn eftir sem heimabanki þessa einstaklings fylltist af greiðsluseðlum frá öllum fimm smálánafyrirtækjunum sem starfa hér á landi og honum varð ljóst að þessi gamli kunningi hans hefði tekið smálán í hans nafni og platað hann til þess að millifæra andvirði þess yfir á sig.

„Umrætt mál er nú lögreglumál en það er algerlega óásættanlegt að hægt sé að taka smálán í nafni annars aðila og það með einungis kennitölu og reikningsnúmer að vopni. Umræddur einstaklingur samþykkti aldrei skilmála fyrirtækisins og fyrirtækið hafði ekki fyrir því að ganga úr skugga um að réttur einstaklingur væri að taka lánið, t.d. með rafrænum skilríkjum eða annarri aðferð,“ segir á vef Neytendasamtakanna. 

Ítrekuð smáskilaboð

„Vandséð er því að hægt sé að krefjast greiðslu frá þessum aðila, sem raunverulega tók aldrei lán heldur einungis millifærði andvirði þess áfram - grunlaus um svikin sem hann hafði orðið fyrir. Neytendasamtökin ítreka kröfu sína um að böndum verði komið á þessi fyrirtæki svo fljótt sem auðið er.“

Minnt er á að markaðssetning fyrirtækjanna sé afar ágeng en þau senda gjarnan ítrekuð smáskilaboð til fólks sem einhvern tíma hefur tekið smálán.

„Fólk er minnt á að það geti tekið nýtt lán og jafnvel er gengið svo langt að spyrja hvort viðkomandi langi ekki í nýja skó eða aðra flík. Margir falla fyrir slíkum gylliboðum og taka lán í kjölfar slíkra skilaboða.“


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×