Erlent

Fujimori ekki laus allra mála vegna mannréttindabrota

Kjartan Kjartansson skrifar
Fujimori er 79 ára gamall og heilsuveill.
Fujimori er 79 ára gamall og heilsuveill. Vísir/AFP
Sakamáladómstóll í Perú hefur úrskurðað að hægt sé að saksækja Alberto Fujimori, fyrrverandi forseta landsins, vegna morða vopnaðra sveita í forsetatíð hans þrátt fyrir að núverandi forseti Perú hafi náðað Fujimori í desember.

Fujimori hafði aðeins afplánað innan við helming tuttugu og fimm ára fangelsisdóms vegna mannréttindabrota og spillingar þegar Pedro Pablo Kuczynski, forseti Perú, náðaði hann í lok síðasta árs. Margir landsmenns telja að Kuczynski hafi látið pólitíska hagsmuni sína ráða för þegar hann náðaði fyrrverandi forsetann. Forsetinn vísaði til mannúðar en Fujimori hefur átt við heilsubrest að stríða.

Dómstóll komst hins vegar að þeirri niðurstöðu í dag að náðnunin næði ekki yfir mál frá 1992 þegar vopnaðar sveitir sem studdu stjórnarherinn myrtu sex manns í bænum Pativilca. Fujimori getur áfrýjað úrskurðinum.

Í stjórnartíð sinni háði Fujimori harða hildi gegn uppreisnarmönnum í Skínandi stígnum. Tók hann sér meðal annars alræðisvald með stuðningi hersins. Hann var meðal annars sakfelldur fyrir að hafa heimilað dauðasveitum að myrða fólk án dóms og laga árið 2009. Tveimur árum fyrr hafði Fujimori verið dæmdur í fangelsi fyrir mútur og misnotkun valds.


Tengdar fréttir

Fyrrverandi forseti Perú náðaður

Alberto Fujimori tók sér einræðisvald í Perú á 10. áratugnum. Hann var meðal annars fundinn sekur um að hafa heimilað morð dauðasveita á fólki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×