Umfjöllun: Þór Þ. - Keflavík 76-79 | Loksins vann Keflavík

Anton Ingi Leifsson skrifar
Það verða læti í Þorlákshöfn í kvöld.
Það verða læti í Þorlákshöfn í kvöld. vísir/andri
Keflavík vann afar mikilvægan sigur á Þór í Þorlákshöfn í kvöld, 79-76, en liðin voru fyrir leikinn í áttunda og níunda sæti deildarinnar og því í harðri baráttu um síðasta sætið í úrslitakeppninni sem styttist óðum í.

Jafnræði var með liðunum eftir fyrsta leikhluta þrátt fyrir að gestirnir hefðu ávallt verið skrefi á undan. Fyrsti leikhlutinn var leikur áhlaupa, en liðin voru ekkert að hitta sérlega vel. Staðan eftir fyrsta leikhluta, 20-18, gestunum frá Keflavík í vil, en hart var barist og ljóst að stigin sem í boðu voru skiptu liðin ansi miklu máli.

Gestirnir komu mjög sterkir út í annan leikhluta. Ragnar Örn Bragason kom afar sterkur inn af bekknum á sínum gamla heimavelli, setti niður þrista og var aðalástæða þess að munurinn jókst. Þórsarar voru ekki af baki dottnir og náðu aðeins að minnka muninn.

Heimamenn gáfu þó aðeins eftir undir lok fyrri hálfleiksins, fóru aðeins frá sínu leikskipulagi og misstu gestina aftur fram úr sér. Munurinn var svo níu stig þegar liðin gengu til búningsherbergja, 44-35, Keflavík í vil.

Þriðji leikhlutinn var furðulegur. Keflavík var alltaf skrefi framar en heimamenn sem ógnuðu því alltaf af og til að ætla að jafna metin, en Keflavík svaraði alltaf. Þór spilaði svo nánast leikinn úr höndum sér með klaufalegum sóknarleg undir lok leikhlutans sem leiddi til þess að Keflavík leiddi með þrettán stigum fyrir loka leikhlutann, 63-50.

Þór var að gefa Keflavík opin skot og Keflavík var að spila hinn fínasta liðskörfubolta sem opnaði til að mynda þriggja stiga körfur fyrir þá í lok þriðja leikhlutans og upphafi þess fjórða.

Keflavík var komið í góða forystu, 68-50, og öll vötn renndu með stigin til Keflavíkur, en þá hættu Keflvíkingar að koma boltanum inn í teiginn þar sem þeir voru með mikla hæð á heimamenn og voru með mikla yfirburði. Þórsarar stigu á bensíngjöfina, skoruðu 13 stig í röð og minnkuðu muninn í 63-68 þegar um fimm mínútur voru eftir.

Síðustu mínúturnar voru æsispennandi og DJ Balntine fór algjörlega á kostum í liði Þórsara, en hann henti niður þristum eins og að drekka vatn. Að endingu unnu Keflvíkingar svo nauman, en afskaplega mikilvægan sigur, 79-76.

Afhverju vann Keflavík?

Keflavík hafði undirtökin í raun allan leikinn. Þeir leiddu nánast fyrstu mínútu til þeirrar síðustu og voru að spila mun betri vörn en þeir hafa gert í síðustu leikjum, sér í lagi í fyrri hálfleiknum. Þeir héldu Þór í aðeins 35 stigum í fyrri hálfleik.

Þeir voru svo komnir í góða forystu í þriðja leikhluta þar sem hittnin þeirra var mjög góð og þeir voru að nýta stærðarmuninn mjög vel. DJ Balentine reyndi að skjóta Þór inn í leikinn og tókst það með lygilegri hittni, en að endingu voru gestirnir frá Keflavík búnir að byggja það góðan grunn að þeir stóðu uppi sem sigurvegarar.

Hverjir stóðu upp úr?

Christian Jones átti mjög góðan leik í liði Keflavíkur, en hann er á reynslu hjá félaginu. Það hlýtur einfaldlega að vera að hann muni spila áfram með liðinu. Hann skoraði 24 stig og tók tíu fráököst. Hann setti ellefu af fjórtán skotum sínum niður. Ragnar Örn Bragason átti einnig skínandi leik á sínum gamla heimavelli, nýorðinn faðir.

Hjá Þór var DJ Balentine stigahæstur með 29 stig, en hann var einungis með níu stig í fyrri hálfleik. Hann setti upp skotsýningu í þriðja leikhluta og sýndi mátt sinn. Næstur kom Halldór Garðar með 18 stig, en hann er orðinn afar mikilvægur leikmaður í þessari rullu Þórsara.

Tölfræðin sem vakti athygli

Keflavík náði að frákasta mun betur heldur en heimamenn, en gestirnir tóku þrettán fleiri fráköst, 46 gegn 33. Það kemur kannski á óvart að Keflavík tapaði fleiri boltum en heimamenn. Þeir fengu einnig mun meira framlag frá bekknum, 43 Keflavíkur-stig gegn 27 frá bekknum hjá Þórsurum.

Hvað gerist næst?

Keflavík fer næst norður yfir heiðar og spilar við bikarmeistara Tindastóls á fimmtudag. Þar er annar mjög mikilvægur leikur fyrir Keflavík, en þeir mega ekki missa kraftinn sem þeir höfðu í kvöld ætli þeir sér í úrslitakeppni. Mega ekki slaka á klónni. Þórsarar þurfa hins vegar að komast aftur á sigurbraut sem fyrst ætli þeir sér í úrslit, en þeir fara næst í Seljaskóla á miðvikudag.

Þór Þ.-Keflavík 76-79 (18-20, 17-24, 15-19, 26-16)

Þór Þ.: DJ Balentine II 29, Halldór Garðar Hermannsson 18/6 fráköst, Emil Karel Einarsson 7/10 fráköst, Davíð Arnar Ágústsson 6, Óli Ragnar Alexandersson 6, Chaz Calvaron Williams 5/4 fráköst, Snorri Hrafnkelsson 4, Ólafur Helgi Jónsson 1/8 fráköst, Magnús Breki Þórðason 0, Adam Eiður Ásgeirsson 0, Þorsteinn Már Ragnarsson 0, Benedikt Þorvaldur G. Hjarðar 0.

Keflavík: Christian Dion Jones 24/10 fráköst, Ragnar Örn Bragason 19/4 fráköst, Guðmundur Jónsson 11/7 fráköst, Dominique Elliott 9/8 fráköst, Hörður Axel Vilhjálmsson 6/8 fráköst, Magnús Már Traustason 5/5 stoðsendingar, Ágúst Orrason 3, Daði Lár Jónsson 2/4 fráköst, Andri Þór Tryggvason 0, Andrés Kristleifsson 0, Davíð Páll Hermannsson 0. 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira