Umfjöllun og viðtöl: KR - Grindavík 102-72 | Meistararnir völtuðu yfir slaka Grindvíkinga

Magnús Ellert Bjarnason skrifar
Jón Arnór Stefánsson.
Jón Arnór Stefánsson. Vísir/Hanna
KR vann sennilega sinn auðveldasta sigur í vetur í kvöld þegar að liðið valtaði yfir Grindavík, 102-72, í lokaleik 17. umferðar Domino’s deildar karla í körfuknattleik.

Líkt og tölur leiksins gefa til kynna var munurinn á liðunum gríðarlegur og var ekki að sjá að þetta væru lið sem spila í sömu deild. Minnti leikurinn gestina eflaust óþægilega mikið á oddaleik liðanna í úrslitum deildarinnar í fyrra, þegar að KR tryggði sér titillinn með 39 stiga sigri í einum ójafnasta oddaleik í manna minnum.

Gestirnir úr Grindavík sáu aldrei til sólar í DHL- höllinni í vesturbænum í kvöld og mættu einfaldlega ekki til leiks. Skoruðu einungis 11 stig í fyrsta leikhluta og 25 stig í öllum fyrri hálfleiknum.

Sóknarleikur Grindavíkur var í fyrri hálfleik á par við lið í utandeildinni og þá voru þeir alltof ragir í varnarleiknum. Leikmenn KR gat keyrt í átt að körfunni óhindraðir eða sent á opin mann í nánast öllum sóknum sínum og var því ekki að spyrja að úrslitum leiksins. Ekki þegar að frábærir skotmenn á borð við Brynjar Þór Björnsson og Jón Arnór Stefánsson eru í KR liðinu.

Þegar liðin gengu til búningsherbergja í hálfleik var munurinn á liðunum 28 stig og einungis forsmatriði fyrir heimamenn að klára leikinn. Það gerðu þeir, stigu í raun aldrei af bensíngjöfinni og sigldu 30 stiga sigrinum þægilega í höfn.

Gestirnir sýndu vott af lífsmarki í síðari hálfleik en það var einfaldlega alltof seint. KR eru eftir leikinn jafnir Haukum á toppi deildarinnar en Grindavík gerði sér engan greiða í baráttunni um sæti í úrslitakeppnina. Sitja í 7. sæti deildarinnar og þurfa að breyta nánast öllu í sínum leik fyrir næsta leik gegn Njarðvík.

Af hverju vann KR?

Þeir mættu til leiks og léku á alls oddi allar 40 mínúturnar. Allt gekk upp í sóknarleik þeirra og þá voru þeir grimmir í varnarleiknum, leyfðu Grindavík nánast aldrei að hlaða í opið skot.

Leikmenn Grindavíkur virðast hins vegar hafa haldið að leikurinn byrjaði kl 21:00, en ekki 20:00, því þeir mættu einfaldlega ekki til leiks í fyrri hálfleik. Það er óþarfi að fegra þetta eitthvað, þeir voru einfaldlega vandræðilega lélegir á báðum endum vallarins.

Bestu menn vallarins 

Kristófer Acox, Brynjar Þór og Jón Arnór voru allir stórkostlegir í kvöld í liði KR, bæði í sókn- og vörn. Það segir í raun allt sem segja þarf um frammistöðu þeirra að enginn annar leikmaður KR komst í tveggja stafa tölu, en þrátt fyrir það vann liðið með 30 stiga mun.

J’Nathan Bullock og Dagur Kár Jónsson eru einu leikmenn Grindavíkur sem geta gengið með bakið breitt frá þessum leik. Aðrir leikmenn liðsins áttu sennilega sinn versta leik á tímabilinu. Í tilfelli Ólafs Ólafssonar er það allavega víst. Endaði hann leik með einungis 3 stig og var ekki að sjá að um landsliðsmann væri að ræða.

Áhugaverð tölfræði

Allir leikmenn KR sem voru á skýrslu hér í kvöld komust á blað líkt og þjálfari liðsins, Finnur Freyr Stefánsson, benti stoltur á í leikslok. Ekki oft sem að það gerist í Domino’s deildinni.

Hvað gerist næst 

KR fær annað suðurnesjalið, Keflavík, í heimsókn næsta föstudagskvöld. Á sama tíma tekur Grindavík á móti Njarðvík. Körfuboltaaðdáendur eiga því von á körfuboltaveislu að viku liðinni.

Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari KR.Vísir/Anton
Finnur Freyr: Sjáum fimmta titilinn innan seilingar

Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari KR, var að vonum hæstánægður í leikslok. Taldi hann að þetta hafi verið besti frammistaða KR í vetur.

„Ég held þetta hafi verið besti leikur okkar í vetur. Það gekk nánast allt upp, sérstaklega varnarleikurinn og flæðið sem við náðum að byggja upp á löngum köflum í leiknum. Þá náðum að halda mjög góðu Grindavíkurliði í lágu skori sem ég er gríðarlega ánægður með. “

Þrátt fyrir að Kristófer Acox, Brynjar Þór Björnsson og Jón Arnór Stefánsson hafi að mestu leyti séð um stigaskorun KR liðsins í kvöld telur Finnur að liðsheildin hafi skopið sigurinn í kvöld. Allir leikmenn liðsins hafi lagt voga á vogaskálarnar í kvöld.

„Það sem skipti mestu máli var varnarleikurinn, við náðum að neyða þá oft í erfið skot. Pavel sýndi líka enn og aftur að hann getur „dominerað“ leiki án þess að skora mikið. Stundum skora nokkrir en aðrir leikmenn þurfa að sinna öðru óeigingjörnu hlutverki. Það er liðsheildin sem skiptir máli. Það er auðvelt að horfa upp á skortöfluna og sjá að Kristófer, Brynjar og Jón skoruðu mest, en Pavel, Darri, Bjössi og fleiri lögðu vog á vogaskálarnar í kvöld. “

Nýr kani, Kendall Pollard, er væntanlegur í Vesturbæinn á sunnudaginn og bindur Finnur miklar vonir við hann.

„Koman hans tafðist af því að hann var að verða pabbi. Við óskum honum til hamingju með það. Hann verður mættur á mánudagsmorgun og verður í hóp gegn Keflavík næsta föstudagskvöld. Við við væntumst mikið af honum og ég er spenntur að sjá hvað hann hefur fram að færa. Ég held hann gefi okkur meiri ógn í kringum körfuna. Kristófer hefur verið frábær en við þurfum meiri breidd þar. “

Finnur er bjartsýnn fyrir úrslitakeppnina sem styttist í og telur möguleika KR á að vinna fimmta íslandsmeistaratitilinn í röð góða.

„Við sjáum fimmta titilinn innan seilingar. Það væri lélegt ef okkur ef við myndum ekki fara ,,all-in“ og skrá okkur í sögubækurnar með þeim magnaða árangri. “

Jóhann Þór var ósáttur með varnarleik sinna manna í kvöld.vísir/ernir
Jóhann Þór: Við erum vanir því að skíta á okkur í DHL- höllinni

Jóhann Þór Ólafsson, þjálfari Grindavíkur, fór ekki leynt með það í leikslok hversu óanægður hann var með sína leikmenn í kvöld.

„Við vorum eins og lið sem var að spila gegn Harlem Globetrotters í fyrri hálfleik. Varnarlega vorum við hræðilegir en það er svosem ekkert nýtt. Ég er með menn í mínu liði sem þykjast vera góðir í körfubolta en þeir geta ekki einu sinni fylgt einföldu leikskipulagi. Það fór margt í gegnum hugann á mér í fyrri hálfleik en í raun er ég bara alveg mát eftir svona frammistöðu.“

Jóhann var ekki sammála blaðamanni að J’Nathan Bullock og Dagur Kár geti gengið með breitt bakið frá þessum leik, þrátt fyrir að þeir hafi skorað 24 og 19 stig.

„Þeir ná sér vissulega að einhverju leyti á strik. En á móti kemur að þeir geta ekki fylgt skipulagi og eru eins og keilur í vörninni allt kvöld.“

Líkt og Jóhann benti svo skemmtilega á í lok viðtals hefur gengi Grindavíkur í Vesturbænum ekki beint verið til að hrópa húrra fyrir undanfarin ár.

„Við erum nokkuð vanir þessu; að skíta á okkur í DHL- höllinni. Það er nýr dagur á morgun og sólin kemur tilmeð að koma upp og allt það. En eins og staðan er núna er ég algjörlega mát eins og ég sagði þér áðan. “

Jón Arnór Stefánssonvísir/eyþór
Jón Arnór: Það er enginn Kani að fara að vinna þetta fyrir okkur

Besti körfuboltamaður í sögu Íslands, Jón Arnór Stefánsson, sýndi hvers hann er megnugur í kvöld. Skoraði 23 stig og var frábær á báðum endum vallarins. Hann var fyrst og fremst ánægður með liðsheildina sem KR- liðið sýndi í kvöld.

„Ég er mjög ánægður með liðið og þá einbeitinguna í liðinu fyrst og fremst. Þú sást það eflaust að það skein af okkur öllum frá fyrstu mínútu og að allir spiluðu sem ein heild. Það skilaði okkur þessum sigri í kvöld. Við erum búnir að æfa betur síðustu vikur en við höfum gert og menn eru heilir. VIð erum að uppskera eftir því.“

Jón segir að leikmenn KR séu loksins komnir í fimmta gírinn eftir brösuga byrjun.

„Við erum allir búnir að vera frekar lélegir það sem af er tímabili, en við erum að komast í fimmta gírinn og ætlum að halda okkur í honum fram að úrslitakeppni. Ef við náum þessum fókus er erfitt að eiga við okkur“

Að lokum var Jón spurður út í hvað hann telur að koma nýs Kana muni breyta í Vesturbænum.

„Við erum að keyra þetta á þessum hóp og hann er bara viðbót við hann. Við þurfum að treysta fyrst og fremst á það að við Íslendingarnir séum góðir. Við erum með góðan kjarna af Íslendingum. Við Íslendingarnir þurfum að stíga upp öll kvöld og það mun ekkert breytast. Það er enginn kani að fara að vinna þetta fyrir okkur “

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira