Handbolti

Sjáðu lærisvein Alfreðs fljúga og eiga tilþrif EM

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Á flugi
Á flugi mynd/skjáskot
Rune Dahmke, leikmaður þýska landsliðsins í handbolta, átti tilþrif Evrópumótsins í Króatíu í gær og líklega tilþrif ársins í íþróttinni þrátt fyrir að fyrsti mánuður ársins sé ekki liðinn undir lok.

Þessi frábæri vinstri hornamaður, sem leikur undir stjórn Alfreðs Gíslasonar hjá Kiel, bjargaði marki á ótrúlegan hátt í stórleik Danmerkur og Þýskalands í gærkvöldi.

Danir voru tveimur mörkum yfir og Þjóðverjar með auka mann í sókninni og því engan í marki þegar tvær mínútur voru eftir. Þýska liðið missti boltann og ætlaði íslenski Daninn Hans Óttar Lindberg að skora í autt netið yfir allan völlinn.

Boltinn stefndi svo sannarlega í markið en þá kom Dahmke fljúgandi og sló boltann aftur fyrir endamörk. Algjörlega sturluð tilþrif hjá þessum magnaða leikmanni.

Sá þýski bætti svo um betur og skoraði frábært mark þegar að fimmtán sekúndur voru eftir en hann tók þá við sendingu markvarðarins og minnkaði muninn í eitt mark, 26-25, en nær komst þýska liðið ekki.

Þessi ótrúlegu tilþrif má sjá í spilaranum hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×