Viðskipti innlent

Stjórn United Silicon óskar eftir gjaldþrotaskiptum á félaginu

Birgir Olgeirsson skrifar
Stjórn United Silicon hf. hefur sent beiðni til Héraðsdóms Reykjaness um gjaldþrotaskipti á búi félagsins.
Stjórn United Silicon hf. hefur sent beiðni til Héraðsdóms Reykjaness um gjaldþrotaskipti á búi félagsins. Vísir/Vilhelm
Stjórn United Silicon hf. hefur farið fram á gjaldþrotaskipti félagsins og beiðni hefur verið send til Héraðsdóms Reykjaness. Útséð þykir að nauðasamningar náist og því ekki forsendur fyrir beiðni um frekari framlengingu á greiðslustöðvun. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.

Þar segir að ákvörðunin hafi verið tekin eftir að ljóst varð að Umhverfisstofnun gerði kröfu um rekstur hæfist ekki á ný í verksmiðjunni fyrr en eftir viðamiklar framkvæmdir sem gætu tekið vel á annað ár.

Í tilkynningunni kemur fram að staða félagsins hafi verið þröng og afar erfið og það hafi verið ljóst um skeið. Félagið fékk fyrst heimild til greiðslustöðvunar í ágúst 2017. Rekstur verksmiðju félagsins var skömmu síðar, eða þann 1. september, stöðvaður af Um­hverf­is­stofn­un. Heimild félagsins til greiðslu­stöðvun­ar var þann 4. september framlengd til 4. des­em­ber og þann dag til dagsins í dag.

„Arion banki hefur lagt félaginu til fjármagn á greiðslustöðvunartímabilinu og kostað rannsóknir og greiningar á stöðunni. Verkefni stjórnar á greiðslustöðvunartímabilinu var að reyna að ná nauðasamningum og fá nýja fjárfesta að félaginu. Forsenda þess var að fá betri upplýsingar um stöðu félagsins. Þær úttektir sem unnar voru leiddu meðal annars í ljós mikla óreiðu og upp kom rökstuddur grunur um fjárdrátt stofnanda félagsins. Hann hefur verið kærður til embættis héraðssaksóknara. Einnig voru framkvæmdar ítarlega úttektir á búnaði verksmiðjunnar. Í skýrslu út­tekt­araðila kom fram að grunn­hönn­un ofns­ins sjálfs væri góð en aug­ljóst sé að ódýr og óvandaður jaðarbúnaður hafi orsakað tíðar bilanir og skapað erfiðleika við fram­leiðsluna. Mat sérfræðing­anna sýn­di að um 25 millj­ón­ir evra þyrfti til að verk­smiðjan teldist full­kláruð,“ segir í tilkynningunni.

Þegar félög fara í gjaldþrot þá tekur við ferli sem er í höndum skiptastjóra sem skipaður er af héraðsdómara.


Tengdar fréttir

Örlög United Silicon ráðast í dag

Það ræðst væntanlega á stjórnarfundi í dag hjá United Silicon, sem á kísilmálmverksmiðjuna í Helguvík, hvort fyrirtækinu verður stefnt í gjaldþrot.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×