Handbolti

Lokakafli Íslendinga á móti Serbum lítur nú enn verr út

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Geir Sveinsson og Aron Pálmarsson.
Geir Sveinsson og Aron Pálmarsson. Vísir/Ernir
Ísland klúðraði Evrópumótinu í Króatíu á skelfilegum lokakafla á móti Serbum og lokakafli Íslendinga í þessum leik á móti Serbum lítur nú enn verr út eftir mjög slaka frammistöðu Serbíu í milliriðlinum í Zagreb.

Serbar töpuðu þriðja leiknum í röð í milliriðlinum í kvöld þegar liðið lá með fimm mörkum á móti Hvít-Rússum, 32-27.

Serbar eru búnir að spila sex leiki á EM í Króatíu og tapað fimm þeirra. Eini sigurleikurinn var á móti Íslandi þar sem þeir sendu íslensku strákana heim.

Íslenska liðið fjórum mörkum yfir á móti Serbum, 20-16, þegar aðeins 19 mínútur voru eftir en íslensku strákarnir töpuðu lokakaflanum með sjö marka mun, 6-13.

Serbar unnu þessar tæpu tuttugu mínútur þannig með sjö mörkum (13-6) en hafa tapað hinum 340 mínútunum á mótinu með samtal 38 mörkum.

Leikir Serba á EM í Króatíu 2018:

10 marka tap á móti Króatíu (22-32)

5 marka tap á móti Svíþjóð (25-30)

3 marka sigur á Íslandi (29-26)

5 marka tap á móti Noregi (27-32)

9 marka tap á móti Frakklandi (30-39)

5 marka tap á móti Hvíta Rússlandi (27-32)

Serbar á EM í Króatíu 2018:

Síðustu 20 mínúturnar á móti Íslandi: +7 (13-6)

Hinar 340 mínúturnar á Evrópumótinu: -38 (147-185)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×