Handbolti

Vonir Noregs úti þrátt fyrir sigur │ Öruggt hjá Dönum

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Sigur Norðmanna var ekki nógu stór í dag svo þeir eru á heimleið
Sigur Norðmanna var ekki nógu stór í dag svo þeir eru á heimleið vísir/epa
Danir unnu öruggan ellefu marka sigur á Makedóníu í lokaleik sínum í milliriðli tvö á Evrópumótinu í handbolta sem fram fer í Króatíu.

Fyrir leikinn voru Danir öruggir áfram í undanúrslit, og þar sem Slóvenar og Tékkar gerðu jafntefli fyrr í dag þá voru þeir einnig öruggir með fyrsta sæti riðilsins. Makedóníumenn áttu ekki möguleika á því að komast áfram.

Það var jafnt með liðunum til að byrja með og fyrri hálfleikur allur í járnum. Staðan í leikhléi var 12-12. Danir komu hins vegar tvíefldir til leiks í seinni hálfleik og komust hægt og rólega fram úr Makedóníumönnum. Þegar leikurinn var flautaður af var munurinn orðinn 11 mörk, 20-31.

Michael Damgaard var markahæstur í liði Dana með 11 mörk. Hjá Makedóníumönnum var Filip Kuzmanovski með 6 mörk.

Svíþjóð og Noregur mættust í hörku leik í milliriðli eitt þar sem mun meira var undir. Bæði lið áttu möguleika á að komast áfram með sigri, en þurfa þó að treysta á að Frakkar vinni Króata seinna í kvöld.

Leikurinn var stál í stál frá fyrstu sekúndu, en Norðmenn náðu aðeins að sigla fram úr um miðjan fyrri hálfleik, komust í 6-9 þegar 16 mínútur voru liðnar. Svíar komu til baka og var munurinn aðeins eitt mark í leikhléi, 11-12.

Það var áfram allt jafnt í seinni hálfleik, en Norðmenn þó með tærnar aðeins framar grönnum sínum. Svíar gáfust þó aldrei upp og jöfnuðu leikinn þegar tæpar tíu mínútur voru eftir af leiknum.

Christian O'Sullivan kom Norðmönnum aftur yfir stuttu síðar og þeir gáfu forystu sína ekki eftir aftur, lokatölur urðu 25-28 fyrir Norðmönnum.

Nú eru Norðmenn, Svíar og Króatar með sex stig hvor, en Frakkar eru á toppnum með átta stig. Eins og áður segir mætast Frakkar og Króatar í kvöld þar sem úr ræðst hvaða lið fara áfram í undanúrslitin, sem og hverjir fylgja Dönum upp úr milliriðli tvö þegar Þjóðverjar og Spánverjar mætast.

Norðmenn eru þó úr leik, því þeir þurftu að vinna með fimm mörkum til þess að eiga möguleika á að fara áfram. Svíar geta enn komist í undanúrslitin ef Frakkar vinna Króata.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×