Körfubolti

Stuðningsmaður ÍR kallaði dómarann rasista og var hent út úr húsi | Myndband

Tómas Þór Þórðarson skrifar
ÍR trónir áfram á toppi Domino´s-deildar karla í körfubolta eftir glæsilegan þriggja stiga sigur, 90-87, gegn Njarðvík í Ljónagryfjunni í gærkvöldi.

Spennan var mikil en Breiðhyltingar náðu að knýja fram sigur og það án síns besta manns í stúkunni en leiðtogi Ghetto Hooligans, hinnar frábæru stuðningsmannasveitar ÍR-liðsins, var rekinn út úr húsi þegar að sjö mínútur voru eftir.

Njarðvík var þá í sókn, tveimur stigum undir, en komst yfir með fallegri körfu Bandaríkjamannsins Terrels Vinsons. Í aðdraganda körfunnar má sjá stuðningsmanninn, sem heitir Sigurður Breiðfjörð Þorsteinsson, halla sér að Ísak Erni Kristinssyni, einum dómara leiksins, og segja nokkur vel valin orð.

Ísak gerði ekki neitt í málunum á meðan sóknin var í gangi en um leið og boltinn fór ofan í körfuna stöðvaði hann leikinn og bað starfsmenn Ljónagryfjunnar um að vísa Sigurði út úr húsi.

Ekki heyrist hvað Breiðhyltingurinn segir við dómarann en það skiptir engu máli þar sem Sigurður opinberaði það sjálfur á Facebook-síðunni Dominos spjallið í gærkvöldi.

„Ég sagði við hann mjög rólega að hann væri rasisti,“ segir Sigurður en Ísak Ernir hafði greinilega mjög takmarkaðn húmor fyrir þeim orðum og vísaði ÍR-ingnum á dyr.

Þessa áhugaverðu senu má sjá í myndbandinu hér að ofan.

mynd/facebook

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×