Umfjöllun og viðtöl: KR - Valur 72-60 | Fyrri hálfleikur fór með Valsmenn

Árni Jóhannsson skrifar
Brynjar Þór Björnsson, leikmaður KR.
Brynjar Þór Björnsson, leikmaður KR. Vísir/Ernir
Körfuboltaleikurinn sem fór fram í Frostaskjólinu í kvöld á milli KR og Vals var ansi lélegur verður að segjast. Bæði lið voru ekki í sínu besta dagsformi greinilega og það sást langar leiðir. Valsmenn byrjuðu mjög illa í leiknum og voru KR-ingar komnir í 14 stiga forystu áður en fyrsti leikhlutinn var hálfnaður en það voru helst tapaðir boltar í sóknarleik Vals sem var þeirra akkilesarhæll og svo leyfðu þeir heimamönnum að opna vörn sína alltof auðveldlega á hinum enda vallarins.

Það var Valsmönnum til happs að nýting heimamanna var ekki upp á marga fiska og höfðu þeir t.d. hitt úr tveimur þriggjastiga skotum þannig að staðan var ekki nema 37-24 í hálfleik heimamönnum í vil.



Valsmenn hafa tekið þá staðreynd að leiknum hafi ekki verið lokið í hálfleik og unnið með það í að keyra sig í gang í þriðja leikhluta en gestirnir mættu brjálaðir til leiks og slógu heimamenn út af laginu með kraftinum sínum. Úr var fínasta spenna og var leikhlutinn ansi skemmtilegur á að horfa. Næst komust Valsmenn einu stigi á eftir KR en náðu þó ekki að brjóta múrinn og komast í forystu. Leikar stóður 51-46 eftir þriðja leikhluta en í þeim fjórða komu gæði KR liðsins berlega í ljós.



Það er ansi góður plús að hafa leikmann eins og Jón Arnór Stefánsson í liði sínu en hann skoraði ansi mikilvægar körfur í fjórða leikhlutanum sem ýttu KR-ingum yfir vinningslínuna. Þeir lokuðu einnig vörn sinni og það var eiginlega aldrei spurning hvar sigurinn myndi enda í fjórða leikhluta. Heimamenn sigruðu 72-60 í körfuboltaleik sem verður ekki í minnum hafður þegar körfuboltasagan verður rifjuð upp í framtíðinni.



Afhverju vann KR?

Af því að KR er með gæði í hverri einustu stöðu á vellinum ásamt því að þeir hafa sigurhefðina með sér í liði jafnvel þegar þeir leika ekki nógu vel. Valsmenn hjálpuðu sér ekki mikið, sérstaklega í fyrri hálfleik, með því að tapa alltof mikið af boltum. Það er hægt að segja að mikil fylgni er milli þess að tapa 27 boltum og tapa körfuboltaleiknum sem spilaður var.

Hverjir stóðu upp úr?

Hjá KR var Brandon Penn stigahæstur með 20 stig og átti hann ljómandi fínan leik og náði oft í körfur þegar KR þurfti á að halda. En til að velja einhvern mann leiksins þá verð ég að segja Jón Arnór Stefánsson hafi verið mikilvægasti leikmaður liðsins í dag. Hann setti liðið á herðar sínar í fjórða leikhluta og var einn af lykillþáttunum í því að KR vann þennan leik.

Hjá Val voru Gunnar Ingi Harðarson og Urald King stigahæstir með 14 stig. King reif að auki niður 22 fráköst fyrir sína menn en hann hefur samt oft skorað meira en í leiknum í kvöld.



Tölfræði sem vakti athygli?

Hún er af neikvæðari gerðinni tölfræðin sem vakti athygli í kvöld. KR-ingar gátu varla keypt sér þriggja stiga körfu á löngum köflum í leiknum og endaði leikinn með 14% nýtingu fyrir utan línuna. Einungis fjögur þriggja stiga skot af 28 rötuðu ofan í en það eru ekki mörg lið á landinu sem komast upp með slíka nýtingu og fara heim með stigin sem eru í boði.

Hvað gerist næst?

Valur fær Njarðvík í heimsókn í næstu umferð og þurfa þeir að vera fljótir að sleikja sárin og vera tilbúnir í slaginn. Þeir fengu greiða frá Hetti í kvöld þar sem þeir unnu sinn fyrsta leik á móti Þór frá Akureyri og munar því enn fjórum stigum á liðunum. KR fer norður og leikur við Þór frá Akureyri og geta notað leikinn í áframhaldandi vinnu í átt að taktinum em þeir tala um að leita að fyrir liðið. Baráttan um röðun í efstu fjögur sæti deildarinnar er grjóthörð og öll stig mikilvæg í þeirri baráttu.



Ágúst Sigurður Björgvinsson: Gríðarlega stoltur af mínu liði

Þjálfari Valsmanna var ekki mjög ósáttur við spilamennsku sinna manna þrátt fyrir tap gegn KR í kvöld. Hann var beðinn um að fara yfir fyrri hálfleikinn og segja frá hvað hann sagði við sína menn í hálfleik.

„KR-ingarnir byrjuðu bara ógeðslega vel í þessum leik, komu af krafti inn og eru náttúrlega að fá inn Jón Arnór og Pavel ásamt því að hafa tapað seinustu tveimur leikjum. Þeir voru því mjög ákveðnir að ná í þennan sigur greinilega, þeir eru bara hrikalega góðir og sýndu það í þessum leik.Það eru töluverð gæði í KR liðinu og það sást í seinni hálfleik en það þarf gjörsamlega allt að ganga upp til að vinna þetta lið og það gerðist ekki hjá okkur í dag. Mínir menn fá mikið hrós fyrir þennan leik, þeir börðust gífurlega vel og skildu allt eftir á gólfinu í kvöld og ég er gríðarlega stoltur af mínu liði“.



Ágúst var spurður út í komandi leiki og hvort það gæfi ekki góð fyrirheit að liðið sýndi svona mikla baráttu.



„Algjörlega góð tíðindi fyrir komandi leiki. Ef við ætlum að spila eins og við spiluðum seinustu þrjá leikhlutana þá var rosalega góð orka í liðinu. Það voru allir tilbúnir í þetta verkefni og það er það eina sem ég get farið fram á“.



Jón Arnór Stefánsson: Margir að sofna á verðinum

„Við tökum þetta. Við erum „work in progress“ erum að reyna að ná ryþma aftur og byrjaðir að æfa betur enda með fullan hóp núna. Ég er kominn aftur og Pavel þannig að æfingarhópurinn er orðinn þéttur loksins aftur þannig að við erum að reyna að keyra upp hraðann og stilla saman strengi upp á nýtt og það tekur tíma. Það er gott að vinna í kvöld í nágrannaslag og mjög jákvætt sem við tökum út úr þessum leik“, sagði Jón Arnór Stefánsson um leikinn en hann átti mjög góðan leik og var einn af lykilmönnum heimamanna.

Hann var spurður að því hvort að seinustu tveir leikir væru farnir að hafa áhrif á hugarfar leikmanna en KR tapaði tveimur seinustu leikjum fyrir þennan.



„Það sést alveg langar leiðir, það er eitthvað sálfræðilegt að hjá þessu liði og eitthvað sem við erum bara að vinna í. Við erum svona að komast að rót vandans og erum að vinna í því að búa til betri stemmningu í liðinu hjá okkur og það vonandi smitar út frá sér upp í stúku og út í KR bara. Mér finnst vera stemmningsleysi í klúbbnum yfir höfuð og það byrjar hjá okkur. Við þurfum að sýna þeim betri leik hjá okkur þegar áhorfendur koma í höllina að fylgjast með okkur og fara vonandi að styðja okkur í leiðinni, við erum að reyna að endurvekja þennan KR kúltúr sem hefur verið hérna í gegnum árin. Það er mikil vinningshefð hérna alveg eins og allir vita en mér líður eins og að margir séu að sofna á verðinum og við megum ekki láta það gerast“



Hann var spurður að lokum út í formið hjá sjálfum sér en hann leit mjög vel út í leiknum og þá hvort hann væri orðinn 100%.



„Nei ég er langt frá því að vera 100% en ég er bara eitt púsluspil í þessu liði og við þurfum allir að bæta okkur og ekki bara ég. Ég þarf að koma mér í betra form og með því kemur ryþmi og einbeiting og við erum að vinna í okkur. Við þurfum allir að stíga upp, æfa betur og vera bara betra á öllum sviðum, rífa fólkið með okkur og búa til góða stemmningu. Það er held ég lykillinn að þessu öllu saman“.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira