Handbolti

Gottfridsson mikilvægastur á EM

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Gottfridsson hefur staðið sig vel í sænska liðinu
Gottfridsson hefur staðið sig vel í sænska liðinu vísir/epa
Spánverjar eiga tvo fulltrúa í úrvalsliði Evrópumótsins í handbolta sem gefið var út í dag. Liðið var valið af sérfræðingum frá öllum þáttökuþjóðum mótsins jafnframt sem kosning áhorfenda hafði einnig vægi.

Hægri sóknarvængurinn er spænskur, en Alex Dujshebaev er í hægri skyttunni og Ferran Sole í horninu hægra meginn. Sole er á sínu fyrsta Evrópumóti og hefur heillað í spænsku sókninni, er markahæstur Spánverja enn sem komið er.

Leikstjórnandinn er hinn norski Sander Sagosen, þrátt fyrir að Norðmenn hafi ekk náð að tryggja sig áfram í undanúrslitin. Sagosen kom að 36 prósent af mörkum Noregs í mótinu, skoraði 32 og gaf 38 stoðsendingar.

Vinstri skyttustaðan fer til hins danska Mikkel Hansen, en þetta er í þriðja skipti á fjórum árum sem Hansen fær sæti í úrvalsliði stórmóts í handbolta. Með honum vinstra megin er Króatinn Manuel Strlek í horninu. Strlek átti aðeins eitt misheppnað skot í leikjum Króata í milliriðlinum.

Markið ver hinn franski Vincent Gerard, sem hefur tekið við keflinu af Thierry Omeyer. Hann hefur fyllt risa stór fótspor Omeyer nokkuð vel, með 19 varða bolta í leik Frakka og Svía fyrr í mótinu.

Varnarmaður mótsins var valinn hinn króatíski Jakov Gojun. Mikilvægasti leikmaður mótsins er Jim Gottfridsson. Hann skoraði 27 mörk fyrir Svía á leið þeirra í úrslitaleikinn ásamt því að gefa 23 stoðsendingar.

Bronsleikur Frakka og Dana stendur nú yfir og Svíar leika gegn Spánverjum til úrslita seinna í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×