Viðskipti innlent

Sæmundur Sæmundsson nýr forstjóri Borgunar

Samúel Karl Ólason skrifar
Sæmundur Sæmundsson.
Sæmundur Sæmundsson.
Sæmundur Sæmundsson hefur verið ráðinn forstjóri Borgunar hf. og tekur hann til starfa hjá fyrirtækinu á morgun. Sæmundur tekur við af Hauki Oddssyni, sem sagði upp störfum á síðasta ári eftir tíu ára starf og í framhaldi var staða forstjóra auglýst laus til umsóknar.

„Sæmundur er öflugur leiðtogi með víðtæka reynslu af stjórnunarstörfum og góða þekkingu á fjármálamarkaði. Algjör einhugur var í stjórn Borgunar hf. um ráðningu hans og við hlökkum til samstarfs við hann í framtíðinni ,“ segir Erlendur Magnússon, stjórnarformaður Borgunar hf. í tilkynningu.

Hann var síðast framkvæmdastjóri rekstrarsviðs hjá Sjóvá og þar áður forstjóri Teris. Í tilkynningunni segir einnig að Sæmundur hafi setið í fjölmörgum sérfræðinefndum fjármálafyrirtækja og hafi verið stjórnarformaður Auðkennis.

Sæmundur er tölvunarfræðingur frá University of Texas í Bandaríkjunum og hefur að auki umtalsverða reynslu á sviði verkefnastjórnunar, stjórnunar og hugbúnaðarþróunar.

„Borgun er spennandi fyrirtæki á síbreytilegum og ört vaxandi markaði. Hjá fyrirtækinu starfar stór hópur af afar hæfu starfsfólki og ég hlakka mikið til að starfa með því að verkefnum framtíðarinnar,“ segir Sæmundur í tilkynningunni.

Sæmundur er kvæntur Margréti Völu Kristjánsdóttur, dósent við lagadeild Háskólans í Reykjavík, og eiga þau þrjá syni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×