Handbolti

Arnar Freyr: Öll gagnrýni er frábær

Henry Birgir Gunnarsson í Split skrifar
Arnar Freyr í Paladium-höllinni í gær.
Arnar Freyr í Paladium-höllinni í gær. vísir/ernir
Línumaðurinn Arnar Freyr Arnarsson verður í eldlínunni gegn Svíum í kvöld og hann getur ekki beðið. Hann leikur með sænska meistaraliðinu Kristianstad og þekkir marga leikmenn liðsins.

„Þetta verður mjög gaman. Ég þekki helminginn af liðinu og hef spilað með mörgum þeirra. Það verður gaman að kljást við þá,“ segir Arnar sem ætlar að láta Svíana finna fyrir því.

„Heldur betur. Það er markmiðið að lemja þá í vörninni og keyra vel á þá.“

Þessi stóri og stæðilegi leikmaður þreytti frumraun sína á stórmóti í Frakklandi fyrir ári síðan og veit því vel núna hvað hann er að fara út í.

„Síðast var maður að læra inn á hlutina en núna er maður reynslunni ríkari. Þá ætti ég að hafa meiri fókus, hugsa um liðið og fara að vinna einhverja leiki.“

Línumaðurinn var harðlega gagnrýndur fyrir frammistöðu sína í leikjunum gegn Svíum í október og hann segist hafa tekið þeirri gagnrýni vel.

„Ég tók gagnrýnina til mín og á mig eins og á að gera. Ég fór svo að hugsa um sjálfan mig og pæla í hvað ég geti gert betur. Ég er léttari núna og hef líka bætt þolið. Ég skil leikinn líka vonandi aðeins betur. Því er ég mun tilbúnari í þetta mót en það síðasta,“ segir Arnar en hann fagnar allri gagnrýni og fór ekki í neina fýlu yfir henni.

„Öll gagnrýni er frábær og maður elskar þegar allir eru að segja eitthvað um mann. Það er geggjað og fínt að fá comment því þá bæti ég mig bara.“

Viðtalið í heild sinni má sjá hér að neðan.

Leikur Íslands og Svíþjóðar hefst klukkan 17.15 og er í beinni textalýsingu á Vísi.


Tengdar fréttir

Finnur alltaf fyrir stórmótsfiðringi

Heimsmethafinn Guðjón Valur Sigurðsson er á sínu 21. stórmóti á löngum og glæsilegum ferli. Hann er fullur tilhlökkunar fyrir fyrsta leik sem er gegn skemmtilegu liði Svía.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×