Handbolti

Hvað getur gerst hjá strákunum okkar í kvöld?

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Strákarnir okkar geta komist áfram í kvöld þrátt fyrir tap.
Strákarnir okkar geta komist áfram í kvöld þrátt fyrir tap. Vísir/Getty
Leikurinn við Serbíu á EM í handbolta í kvöld ræður úrslitum fyrir framhald íslenska landsliðsins á mótinu. Okkar menn gætu farið áfram í milliriðla en líka fallið úr leik.

Sigur Íslands á Svíþjóð í fyrsta leik keppninnar setur strákana okkar í vænlega stöðu fyrir leikinn gegn Serbum í kvöld. Serbar hafa tapað báðum leikjum sínum í riðlinum til þessa.

Sjá einnig:Norskur sérfræðingur: Svíar leyfðu Serbum að skora því þeir vilja ekki að Ísland komist áfram

Þrjú lið af fjórum komast áfram í milliriðla og liðin taka með sér stigin sem þau unnu sér inn gegn öðrum liðum sem komust áfram upp úr riðlinum.

Eftir sigur Svía á Serbíu í gær er ljóst að Svíþjóð er komið áfram í milliriðla. Það þýðir að ef strákarnir komast áfram í kvöld munu þeir taka með sér tvö stig.

Vísir skoðar möguleikana sem eru í stöðunni fyrir lokaumferð A-riðils á EM í Serbíu.

Ísland vinnur Serbíu

Málið er einfalt. Ef strákarnir vinna í kvöld komast þeir áfram í milliriðla og taka með sér tvö stig.

Ísland og Serbía gera jafntefli

Það sama gerist - Ísland kemst áfram og tekur með sér tvö stig.

Ísland tapar fyrir Serbíu

Ef að Króatía vinnur Svíþjóð í kvöld kemst Ísland áfram með tvö stig ef að okkar menn tapa ekki með meira en þriggja marka mun.

Verði úrslitin á þann vega að Ísland tapi með eins til þriggja marka mun þarf þó íslenska þjóðin að bíða í rúmar tvær klukkustundir eftir úrslitunum úr leik Króatíu og Svíþjóðar, sem hefst klukkan 19.30.

Fjögurra marka tap eða stærra þýðir að Ísland er úr leik, sama hvað gerist í hinum leik riðilsins.

Ef að Króatía og Svíþjóð gera jafntefli í kvöld verða strákarnir okkar að ná að minnsta kosti jafntefli gegn Serbum til að komast áfram með tvö stig.

Ef að Svíþjóð vinnur Króatíu í kvöld gildir hið sama: Ísland verður að ná í minnst eitt stig í kvöld til að komast áfram með tvö stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×