Handbolti

Slóvenar íhuga að draga lið sitt úr keppni

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Landsliðsþjálfari Slóvena var æfur út í dómara leiksins.
Landsliðsþjálfari Slóvena var æfur út í dómara leiksins. Vísir/Getty
Til greina kemur að draga lið Slóveníu úr keppni á EM í handbolta. Þetta staðfesta forráðamenn liðsins við fjölmiðla í heimlandinu í dag en fjallað er um málið á vef handball-world.com.

Goran Cvijic, framkvæmdastjóri handknattleikssamband Slóveníu, segir málið ná út fyrir öll mörk en eftir leikinn voru úrslitin kærð til aganefndar Handknattleikssambands Evrópu, EHF.

Málið hefur verið tekið fyrir og var því vísað frá. Slóvenar hafa þó frest til kvöldsins til að áfrýja.

Ákvörðun dómaranna byggir á reglugerðarbreytingu sem var kynnt til sögunnar árið 2016 en samkvæmt henni er óheimilt að stöðva hraðaupphlaup á síðustu 30 sekúndum leiksins.

Slóvenar náðu að komast einu marki yfir gegn Þýskalandi, 25-24, þegar fjórar sekúndur voru eftir af leiknum. Slóvenar brutu þó af sér að mati dómara eftir markið og komu í veg fyrir að Þjóðverjar gætu tekið hraða miðju.

Eftir að hafa skoðað myndbandsupptökur af atvikinu ákváðu dómarar leiksins að reka leikmann slóvenska liðsins af velli og dæma Þjóðverjum vítakast. Tobias Reichmann skoraði úr því og tryggði Þjóðverjum jafntefli.

„Sambandið íhugar alvarlega að yfirgefa EM. Við erum þó meðvitaðir um hvaða áhrif sú ákvörðun getur haft á næstu kynslóðir,“ sagði Cvijic.

Veselin Vujovic, landsliðsþjálfari Slóveníu, líkti lokasekúndum leiksins við sirkus.

„Þeir náðu að gera íþróttina að sirkus. Af hverju ætti ég að vilja taka þátt í þessu,“ sagði hann.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×