Handbolti

26 prósenta munur á markvörslunni í fyrri og seinni hálfleik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Björgvin Páll Gústavsson.
Björgvin Páll Gústavsson. Vísir/Ernir
Það er vissulega að nóg að taka þegar kemur að frammistöðu íslenska karlalandsliðsins á EM í Króatíu en íslensku strákarnir pökkuðu saman fórum sínum í morgun og eru á heimleið.

Eitt af því sem vekur hvað mesta athygli er frammistaða markvarða íslenska liðsins og þá sérstaklega skortur á markvörslu í seinni hálfleikjum leikjanna.

HBStatz hefur tekið saman tölfræði íslenska liðsins á Evrópumótinu og þar kemur vel í ljós þessi gríðarlegi munur á  markvörslunni í fyrri og seinni hálfleik.

Björgvin Páll Gústavsson stóð í íslenska markinu nær allan tímann og hann var að byrja leikina vel.

Björgvin Páll varði þannig 11 skot í fyrri hálfleik á móti Svíum (58 prósent markvarsla) og 10 skot í fyrri hálfleik á móti Serbum (46 prósent markvarsla). Björgvin varði reyndar „bara“ fimm skot í fyrri hálfleik á móti Króötum (26 prósent markvarsla) en eitt þeirra var vítaskot.

Samtals gerir þetta 43,4 prósent markvörslu í fyrri hálfleik og 8,7 skot varin að meðaltali á fyrstu 30 mínútum leikjanna.  

Markvarslan hrundi hinsvegar í seinni hálfleiknunum. Íslensku markverðirnir vörðu þannig aðeins samtals 10 skot í seinni hálfleik í þessum þremur leikjum og aðeins 17 prósent skota sem á þá komu.

Þetta þýðir að markvarslan fór úr 43 prósentum niður í 17 prósent og lækkaði því um heil 26 prósentustig milli hálfleikja sem er gríðarlegur munur.

Markvarslan í fyrri hálfleik (Frá HB Statz):

Svíþjóð: 11 af 19 - 57,9%

Króatía: 5 af 19 - 26,3%

Serbía: 10 af 22 - 45,5%

Samtals: 26 af 60 - 43,4%

Markvarslan í seinni hálfleik (Frá HB Statz):

Svíþjóð: 4/20 - 20,0%

Króatía: 3/18 - 16,7%

Serbía: 3/20 -  15%

Samtals: 10 af 58 - 17,2%




Fleiri fréttir

Sjá meira


×