Umfjöllun og viðtöl: Þór Ak. - Tindastóll 72-77│ Engin bikarþynnka á Akureyri

Þór Símon Hafþórsson skrifar
Hester var öflugur sem fyrr í kvöld.
Hester var öflugur sem fyrr í kvöld.
Nýkrýndir bikarmeistarar Tindastóls heimsóttu Þór Ak. fyrir norðan nú í kvöld. Leikurinn var heilt yfir rólegur og stefndi lengi vel í að ekki yrði mikið um spennu í kvöld í Höllinni á Akureyri.

Tindastóll byrjaði leikinn betur og í hálfleik var staðan býsna afgerandi. Tindastóll var þá með 15 stiga forskot á heimamönnum og fannst mörgum strax orðið ljóst hvaða lið myndi taka bæði stigin með sér heim.

Þór Ak. kom þó sterkari til leiks í þeim síðari og náði á köflum að minnka bilið á milli liðanna í einungis þrjú stig. En í hvert skipti sem Þór Ak. komst svo nálægt bikarmeisturunum var eins og heimamenn klesstu á vegg því lengra komst liðið ekki.

Að lokum sigraði Tindastóll, 72-77, og er með sigrinum komið í 4. sæti, með jafnmörg stig og KR og Haukar sem töpuðu bæði í kvöld.

Afhverju vann Tindastóll?

Heilt yfir er Tindastóll bara einfaldlega betra lið. Þú þarft ekki að grandskoða töfluna neitt sérstaklega mikið til þess að það blasi við en þar er Tindastóll við toppinn með 10 sigra og fjögur töp en Þór Ak er með þrjá sigra og ellefu töp á hinum endanum.

En hættan fyrir þennan leik var af sjálfsögðu að bikarþynnkan svokallaða myndi segja til sín en það hefur reynst mörgum bikarhöfum erfitt að stíga niður af bleika skýinu þegar alvaran byrjar aftur.

Tindastóll gerði sitt besta til þess að láta þynnkuna segja til sín en Þór Ak. komst á köflum ansi nálægt endurkomu og hefði betra lið líklega refsað Stólunum.

Hverjir stóðu upp úr?

Nino D’angelo á hinsvegar alveg heima í betra liði en í honum búa gæði og um það verður ekki deilt. Á meðan margir heimamenn virtust ganga í svefni í fyrri hálfleik var Nino upptekinn við að safna stigum og vera helsti og stundum eini alvöru sóknarþungi liðsins.

Nino endaði leikinn með 25 stig og þar að auki 14 fráköst. Antonio Hester skoraði 20 stig fyrir Tindastól en þó var besti maður bikarmeistaranna líklega Pétur Rúnar Birgisson en hann skoraði 11 stig, tók 11 fráköst og var með átta stoðsendingar.

Hvað gekk illa?

Að skora úr þriggja stiga skotum gekk býsna illa hjá báðum liðum. Eftir að horfa á Stólanna leika sér að því að skora þrjá punkta gegn KR í bikarúrslitunum á dögunum þá var það kannski eilítil vonbrigði.

Samanlagt áttu bæði lið 61 skot á körfuna úr þriggja stiga færi og fóru einungis 12 boltar ofan í.

Þór Ak.: Nino D'Angelo Johnson 25/14 fráköst/3 varin skot, Hilmar Smári Henningsson 13, Pálmi Geir Jónsson 9/4 fráköst, Sindri Davíðsson 8, Júlíus Orri Ágústsson 7, Hreiðar Bjarki Vilhjálmsson 4, Ingvi Rafn Ingvarsson 4/5 fráköst, Einar Ómar Eyjólfsson 2.

Tindastóll: Antonio Hester 20/8 fráköst, Brandon Garrett 12, Hannes Ingi Másson 11, Pétur Rúnar Birgisson 11/11 fráköst/8 stoðsendingar, Helgi Freyr Margeirsson 10, Friðrik Þór Stefánsson 8/5 fráköst/5 stoðsendingar, Axel Kárason 3, Helgi Rafn Viggósson 2.

 

 

Helgi Rafn Viggósson: Skrýtinn leikur
Helgi Rafn Viggósson, fyrirliði Tindastóls, lyftir bikarnum hátt á loft eftir sigurinn stóra á KR í úrslitaleik Maltbikarsins á laugardaginn.vísir/hanna
Helgi Rafn, leikmaður Tindastóls, átti fínan leik fyrir liðið í kvöld í sigri liðsins á Þór Ak, þrátt fyrir að hann hafi haft hægt um sig í stigaskoruninni með einungis tvö stig.

Aðspurður hvort það hefði verið erfitt að gíra sig upp fyrir leikinn eftir bikarævintýrið um síðustu helgi gaf Helgi lítið fyrir það.

„Ég held það sé aldrei erfitt að gíra sig upp fyrir grannaslag,“ sagði Helgi og viðurkenndi að um eilítið undarlegan leik var um að ræða.

„Þetta var svolítið skrýtinn leikur. Við vorum 15 stigum yfir hálfleik en svo var þetta bara allt í einu orðið naumt þarna í restina þegar það eru tvær mínútur eftir,“ sagði Helgi og hrósaði heimamönnum fyrir góða spilamennsku.

„Þórsarar spiluðu frábærlega í kvöld en sem betur fer gerðum við nóg.“

Israel Martin: Mennirnir á bekknum voru tilbúnir í slaginn
Israel Martin.Vísir/Hanna
Israel Martin, þjálfari Tindastóls, var að vonum ánægður með að landa sigri í kvöld og hrósaði hann sérstaklega mönnunum sem hafa setið mikið á tréverkinu það sem af er vetri.

„Við höfum ekki fengið frí síðan 2. janúar. Höfum spilað 4-5 leiki á undanförnum vikum. Við vorum með marga menn frá vegna meiðsla en ég var mjög ánægður með menn sem komu af bekknum. Þeir voru tilbúnir í slaginn og stigu upp,“ sagði Israel og gaf lítið fyrir það að þreyta hafi verið að plaga hans menn.

„Akureyri er með góðan þjálfara og þeir gáfust aldrei upp og voru vel skipulagðir. Þeir gerðu okkur erfitt fyrir í restina og keyrðu á okkur,“ sagði Israel og kvaðst ánægður með að næla í stigin tvö.

Hann segir ekki tímabært fyrir Tindastól að láta sig dreyma um eitt né neitt enn sem komið er.

„Við tökum einn leik í einu. Það sem ég vil er að mínir menn séu klárir og berjist. Ef við gerum það þá getum við byrjað að láta okkur dreyma.“

Hjalti Þór: Enginn vilji og ekkert flæði
Hjalti Þór Vilhjálmsson, þjálfari Þórs.Vísir/Ernir
Hjalti Þór, þjálfari Þór Ak, var svekktur í leikslok og sagði að fyrri hálfleikurinn hafi verið það sem varð liðinu af falli í dag.

„Við vorum arfaslakir í fyrri hálfleik. Það var engin vilji og það vantaði allt flæði. Við vorum rosalega flatir. Ég veit ekki alveg hvað var í gangi í sókninni. Það var eitthvað einstaklingsbull í gangi.“

Þór Ak. náði að minnka muninn og koma sér í gott færi til að landa sigri í restina en á ögurstundum brást liðinu bogalistinn. En hvað var það sem skilaði endanlega á milli liðanna í kvöld?

„Litlir hlutir hér og þar sem skilja á milli. Til dæmis fráköst og að við skutum 15% fyrir utan þriggja stiga línunna. Við gátum ekki keypt körfu og það er auðvitað dýrt.“

Marques Oliver, bandaríkjamaðurinn í liði Þór Ak. og einn þeirra besti maður kom ekki við sögu í kvöld þrátt fyrir að sitja á varamannabekk liðsins. Hversu langt er í að hann snúi aftur á parketið?

„Hann mun spila með okkur aftur bráðlega en við vitum ekki alveg hvenær það verður. Hann segir fjóra daga en ég býst við að þetta verði nokkrar vikur.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira