Umfjöllun og viðtöl: Stjarnan - Njarðvík: 77-75 │Naumur sigur Garðbæinga

Gunnhildur Lind Hansdóttir skrifar
Hlynur Bæringsson, leikmaður Stjörnunnar, var að frákasta vel í kvöld eins og svo alloft áður.
Hlynur Bæringsson, leikmaður Stjörnunnar, var að frákasta vel í kvöld eins og svo alloft áður. vísir/ernir
Stjarnan nældi sér í tvö mikilvæg stig er þeir tóku á móti Njarðvíkingum í 14. umferð Domino's deild karla í köfuknattleik kvöld.

Strax í upphafi fyrsta leikhluta voru heimamenn með yfirhöndina. Þeir byrjuðu leikinn vel og kláruðu færin sín örugglega og voru áræðnir á körfuna. Gestirnir voru heldur orkulitlir og vantaði almennt pepp í liðsskapinn.

Í öðrum leikhluta var svipaður bragur með liðum. Njarðvíkingar reyndu hvað þeir gátu til að komast almennilega inn í leikinn en Garðbæingar svöruðu öllum aðgerðum gestanna. Hálfleikstölur 45-32 heimamönnum í vil.

Allt annað var að sjá til Njarðvíkurliðsins í seinni hálfleik og augljóst að hálfleikurinn var vel nýttur. Þeir grænu skoruðu fyrstu níu stigin og söxuðu hægt og rólega á forskot heimamanna. Það var ekki fyrr en um 3 mínútur voru liðnar að Hlynur Bærings klippti á áhlaup gestanna með öruggu skoti úr teignum. Mun meiri barátta var með liðum og betri stemning inn í húsinu almennt. Staðan var 60-56 fyrir Garðbæinga.

Loka leikhlutinn var skemmtilegur, fullur af baráttu og tilþrifum. Þegar um tvær mínútur voru liðnar jafnar Njarðvík leikinn, 60-60. Þegar um 15 sekúndur voru eftir af leiktíma voru gestirnir 2 stigum undir í stöðunni 75-73. Það var svo Logi Gunnars sem jafnaði leik með svellköldum ‘floater’, 75-75 og um 6 sekúndur eftir af leik. Þá nær Collin Anthony að setja ævintýralega körfu ofan í og nælir sér í vítaskot að auki sem gerði útaf við leikinn því einungis ein sekúnda var eftir að leiktímanum.

Lokatölur 77-75 Garðbæingum í vil og mikilvæg tvö stig sömuleiðis. 

Af hverju vann Stjarnan?

Stjarnan vann með góðu leikskipulagi og góðri baráttu í kvöld. Þeir létu áhlaup gestanna aldrei taka sig úr jafnvægi og voru vel samstilltir heilt yfir leikinn.

Hverjir stóðu upp úr?

Hlynur Bærings var drjúgur hjá heimamönnum, þá sérstaklega inn í teig. Hann var með 24 stig, 12 fráköst og reyndist gestunum erfiður. Hjá gestunum var Maciek stigahæstur með 16 stig, en hann var sérstaklega áræðinn á körfuna og duglegur að sækja. Tómas Þórður átti einnig flottan leik og skoraði 14 stig og reif niður 12 fráköst. Terrell Vinson hjá Njarðvík skilaði líka sínu og var með 16 stig og 10 fráköst.

Hvað gekk illa?

Fyrri hálfleikur hjá gestunum var heldur dapur og áttu þeir lítið roð í Garðbæingana. Sóknarleikurinn var stirður og of mikið af tilgangslausu drippli. Þrátt fyrir slaka leikhluta í upphafi leiks þá náður þeir að snúa leiknum sér í vil en það vantaði örlítla heppni rétt í lokin að sigurinn færi Njarðvíkur megin. Það verður þó ekki tekið af Stjörnumönnum að þeir áttu sigurinn skilið.

Hvað gerist næst?

Næstkomandi miðvikudag munu Njarðvíkingar fá topplið ÍR í heimsókn á meðan Stjarnan tekur á móti Þór Þorlákshöfn. Þórsarar eru í harðri baráttu að koma sér inn í úrslitakeppnina og því um hörkuleik að ræða.

Stjarnan: Hlynur Elías Bæringsson 24/12 fráköst, Róbert Sigurðsson 15/7 stoðsendingar, Tómas Þórður Hilmarsson 14/12 fráköst, Sherrod Nigel Wright 10/4 fráköst, Arnþór Freyr Guðmundsson 8, Collin Anthony Pryor 6/8 fráköst.

Njarðvík: Terrell Vinson 16/10 fráköst, Maciek Stanislav Baginski 16/4 fráköst, Logi Gunnarsson 15/4 fráköst, Kristinn Pálsson 9/9 fráköst, Oddur Rúnar Kristjánsson 9, Snjólfur Marel Stefánsson 4/9 fráköst, Ragnar Agust Nathanaelsson 2, Vilhjálmur Theodór Jónsson 2, Ragnar Helgi Friðriksson 2, Rafn Edgar Sigmarsson.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira