Umfjöllun og viðtöl: Valur - Höttur 102-94 | Sterkur lokakafli Valsmanna kláraði gestina

Stefán Árni Pálsson skrifar
Vísir/Eyþór
Valsmenn unnu átta stiga sigur á Hetti í Dominos-deild karla í körfubolta í kvöld en með góðum 17-8 kafla undir lokin tókst Valsmönnum að innbyrða sigurinn og koma í veg fyrir fyrsta sigur Hattar í vetur.

Leikurinn var kaflaskiptur og skiptust liðin á forskotinu allan leikinn en Höttur leiddi með einu þegar skammt var til leiksloka þegar Valsmenn settu í gírinn.

Sigldu þeir framúr á lokasprettinum og tóku stigin tvö að þessu sinni en Urald King átti stórleik í liði Vals með 40 stig og 15 fráköst.

Af hverju vann Valur? Liðið var mjög gott sóknarlega og sérstaklega tóku menn gríðarlega mörg sóknarfráköst sem gaf heimamönnum oft á tíðum annan séns í hverri sókn. Heimamenn voru bara sterkari undir lokin og það var alveg ljóst hvaða lið hafði unnið fjóra leiki á tímabilinu og hvaða lið hafði ekki enn náð í stig. Sjálfstraustið í Hattarmönnum er lítið sem ekkert. Í miðjum öðrum leikhluta var Höttur með ágæt tök á leiknum og nokkurra stiga forystu. Þá kom rosalega kafi hjá Val og þeir skoruðu 17 stig í röð. Þetta gaf þeim mikið.

Hverjir stóðu upp úr? Urald King var stórbrotinn í leiknum og eins og áður segir gerði hann 40 stig og tók 15 fráköst. Bracey var einnig magnaður hjá Valsmönnum í kvöld. Í liðið Hattar var það Kelvin Lewis sem gerði 31 stig.

Hvað gekk illa? Varnarleikur Hattar varð þeim að falli í kvöld. Liðið gerði Valsmönnum alltof auðvelt fyrir og því átti liðið í raun ekki mikið skilið út úr þessum leik. Valsmenn verða reyndar að bæta sinn varnarleik en það mun ekki gera sig fyrir liðið að spila svona vörn gegn KR í næstu umferð.  

Hvað er framundan? Valsmenn eiga leik við KR-inga í næsta umferð og það verður erfitt verkefni. Liðið hefur algjörlega möguleika á því að komast í úrslitakeppnina og þarf til þess að bæta sinn leik örlítið. Það er ekki langt í 8. sætið. Höttur er einfaldlega fallið. Það mun fátt bjarga þeim að þessu sinni.

Valur-Höttur 102-94 (24-28, 25-15, 27-32, 26-19)

Valur: Urald King 40/15 fráköst, Austin Magnus Bracey 31/6 fráköst, Oddur Birnir Pétursson 12/5 fráköst, Illugi Steingrímsson 11/5 fráköst, Birgir Björn Pétursson 4, Gunnar Ingi Harðarson 3/6 fráköst/7 stoðsendingar, Sigurður Dagur Sturluson 1, Benedikt Blöndal 0/6 stoðsendingar, Illugi Auðunsson 0, Sigurður Páll Stefánsson 0, Bergur Ástráðsson 0, Þorgeir Kristinn Blöndal 0.

Höttur: Kelvin Michaud Lewis 31/6 fráköst/9 stoðsendingar, Mirko Stefan Virijevic 24/13 fráköst/3 varin skot, Sigmar Hákonarson 14/5 fráköst, Brynjar Snær Grétarsson 12, Hreinn Gunnar Birgisson 5/4 fráköst, Bergþór Ægir Ríkharðsson 4/6 fráköst, Andrée Fares Michelsson 4, Atli Geir Sverrisson 0, Einar Páll Þrastarson 0, Nökkvi Jarl Óskarsson 0, Vidar Orn Hafsteinsson 0, Gísli Þórarinn Hallsson 0.

Viðar: Áttum ekki séns í King og Bracey„Ég er drullu svekktur með þessa niðurstöðu,“ segir Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar, eftir tapið í kvöld.

„Þetta fer bara með töpuðum boltum og sóknarfráköstum sem Valsarar eru að taka. Við réðum síðan bara ekkert við Urald King og Austin Bracey og gleymdum okkur of oft. Það er margt jákvætt í okkar leik en Urald King og Bracey unnu þennan leik í kvöld.“

Viðar segir að leikmenn liðsins hans hafi stundum verið óskynsamir.

„Við höfum oft verið yfir í fyrri hálfleik og það hefur ekki gefið okkur neitt fram af þessu og gerði ekki í kvöld. Þetta kom síðan niður á smotterí í lokin og baráttu. Valsarar vilja spila upp og niður völlinn allan leikinn og eru góðir í því, að stjórna hraðanum.“

Ágúst: Menn geta þakkað King og Bracey„Þetta var rosalega mikilvægur sigur. Þeir byrjuðu leikinn mikið betur en við en í öðrum leikhluta spiluðum við hörkuleik og það gaf okkur mikið,“ segir Ágúst Björgvinsson, þjálfari Vals, eftir sigurinn í kvöld.

„Svona heilt yfir vorum við ekki að spila nægilega góða vörn í þessum leik en gott að klára þetta samt sem áður. Urald King og Austin Bracey voru rosalegir í þessum leik og margir leikmenn í okkar liðið geta þakkað fyrir það, því sumir þeirra eiga mikið inni.“

Valsmenn eru komnir með 10 stig í deildinni og núna munar fjórum stigum á þeim og sæti í úrslitakeppninni. Ágúst er ekki tilbúinn að horfa þangað strax.

„Það er bara gamla góða klisjan. Við eigum KR-inga næsta og einbeitum okkur að þeim leik. Svo vonandi þegar upp verður staðið verðum við með nægilega mörg stig til að lenda í efstu átta sætunum.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira