Umfjöllun og viðtöl: Stjarnan - Höttur 102-69 | Hattarmenn rasskelltir í Garðabæ

Anton Ingi Leifsson skrifar
Hlynur Bæringsson, leikmaður Stjörnunnar, var að frákasta vel í kvöld eins og svo alloft áður.
Hlynur Bæringsson, leikmaður Stjörnunnar, var að frákasta vel í kvöld eins og svo alloft áður. vísir/ernir
Stjarnan lenti í engum vandræðum með Hött í fyrstu umferð Dominos-deildar karla eftir jólafrí, en lokatölur urðu 102-69, Stjörnunni i vil. Heimamenn í Stjörnunni leiddu 59-36 í hálfleik.

Jafnræði var með liðunum þangað til staðan var 11-10, en þá skoruðu heimamenn níu stig í röð og munurinn orðinn tíu stig, 20-10. Þegar fyrsta leikhluta var lokið leiddu þeir einnig með tíu stigum, 31-21, en þeir höfðu tögl og haldir í fyrsta leikhlutanum.

Þeir hertu enn tökin í leikhluta númer tvö. Þeir spiluðu mjög sterka vörn og fengu einungis á sig fimmtán stig í öðrum leikhlutanum, og skoruðu 28. Þeir leiddu því 59-36 í hálfleik og nánast ljóst í hvaða poka stigin myndu fara.

Þessi leikur var ekki spennandi nema fyrstu fimm mínúturnar eða svo og þá skildu leiðir. Áfram gekk gestunum illa að ráðast að körfunni í þriðja leikhlutanum og virtust full ákafir varnarlega þar sem þeir sönkuðu að sér villunum.

Eftir lítt spennandi þriðja og fjórða leikhluta endaði munurinn í 33 stigum, 102-69. Öruggur Stjörnusigur, sem eins og áður segir, var aldrei í hættu. Hattarmenn arfaslakir og spurning hvort þeir fari í gegnum mótið án stiga. Útlitið ekki bjart.

Afhverju vann Stjarnan?

Stjarnan var einfaldlega mun sterkari aðilinn og eru einfaldlega bara betri í körfubolta. Það er bara ekkert flóknara en það. Smá líf var í Hattarmönnum framan af fyrsta leikhluta en eftir að Stjarnan byrjaði að spila sinn bolta þá var aldrei spurning hvoru megin sigurinn myndi enda. Margir leikmenn voru að hitta vel hjá Stjörnunni og þeir að fá mikið og gott framlag frá öllum leikmönnum liðsins. Þeir spiluðu agressíva vörn sem Hattarmenn lentu í miklum vandræðu með og létu boltann rúlla vel sóknarlega.

Hverjir stóðu upp úr?

Ungir drengir eins og Dúi og Egill voru að spila fullt af mínútum og að standa sig gífurlega vel. Þetta var bara nokkuð einfalt hjá Stjörnunni og enginn einn sem stóð upp úr. Arnþór átti góðan leik og setti niður nokkra þrista, Eysteinn og Hlynur komu með framlag eins og ansi margir leikmenn heimamanna. Liðssigur þar sem margir fundu sig. Hjá Hetti var enginn sem stóð upp úr.

Kelvin Lewis endaði stigahæstur með 17 stig, en hann spilaði ekki mikið undir lokin. Líklega hvíldur fyrir leikinn á sunnudag. Frammistaða Hattar ekki í úrvalsdeildarklassa.

Áhugaverð tölfræði

Eftir fyrri hálfleikinn var Hattarliðið komið samtals með tíu fráköst. Það er kannski ekki áhugavert, en það er mögulega áhugavert í samanburði við það að Hlynur Bæringsson, einn og sér í liði Stjörnunnar, var kominn með tíu fráköst. Hlynur var rosalegur í teignum, eins og svo oft áður, og sumir leikmenn gestaliðsins virkuðu einfaldlega hræddir við hann; eðlilega kannski.

Hvað gerist næst?

Þetta var mikilvægur sigur fyrir Stjörnuna, en þeir fara næst í Vesturbæinn. Þar mætir Hrafn Kristjánsson sínum gömlu lærisveinum í KR, en Hrafn þjálfaði KR áður en hann tók við Stjörnunni. Það verður athyglisverður leikur. Hattarmenn fá ÍR í heimsókn, en þessir leikir eru strax á sunnudaginn. Þétt leikið þessa daganna því frí er í deildinni um næstu helgi vegna bikarúrslitahelgarinnar.

Viðar Örn: Litum út eins og nýkomnir af áramótaballi

„Við töpuðum,” sagði Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar, aðspurður um hvað hafi helst farið úrskeiðis í leik liðsins í Ásgarði í kvöld. „Við gerðum það ekki sem við ætluðum að gera.”

„Við vorum langt því frá að vera boðlegir hérna í dag og kannski erum við illa undirbúnir. Ég tek það þá á mig,” sagði Viðar, en ágætis byr virtist í hans mönnum í byrjun. Svo fór úr allur vindur úr þessu og því fór sem fór.

„Allur vindur fór úr okkur eftir smá kafla frá Stjörnunni. Það var lítil trú og við vorum fljótir að fara út úr því sem við ætluðum að gera. Ég get ekki svarað því núna.”

„Ef ég gæti svarað því núna þá hefði ég kannski lagfært það og þegar menn eru svona hauslausir þá er ég hálf ráðalaus líka og fell með. Það er lélegt hjá mér.”

Fannst Viðari þetta skref aftur á bak miðað við leikina sem Höttur spilaði fyrir áramót?

„Skref í eintölu eða fleirtölu? Já, mjög mörg,” sagði Viðar. Stutt er á milli leikja og Hattarmenn fá ÍR í heimsókn á sunnudag. ÍR er á bullandi skriði og aðspurður út í þann leik svaraði Viðar:

„Það er líka búið að vera langt á milli leikja og menn gátu ekki rifið sig upp. Ég hef trú á því að við þurfum að finna gleði og djöflast aðeins og vera á sömu blaðsíðu.”

„Þetta var eins og að við hefðum étið heilt hangilæri í gær og verið bara nýkomnir af áramótaballi. Þetta var lélegt,” sagði hundfúll Viðar að lokum.

Hrafn: Flinkur að lóga eins og minkur í móa

„Mér fannst þetta ekki auðvelt. Við þurfum alltaf að hafa fyrir sigrunum okkar,” sagði Hrafn Kristjánsson, þjálfari Stjörnunnar, glaður í bragði í leikslok.

„Ég var nokkuð ánægður hvernig við komum inn í þennan leik. Nokkuð þéttir og lögðum áherslu á að við myndum ekki missa dampinn í hálfleik. Mér fannst það takast vel.”

Margir leikmenn Stjörnunnar voru að spila vel og álagið dreifðist mikið sem er gott enda stórleikur gegn KR á sunnudag. Nánar að honum á eftir, en liðssigur Stjörnunnar vakti lukku hjá Hrafni.

„Ánægður að ná ungu strákunum inn og margir fengu tækifæri til að sýna sig og berjast. Við erum að bæta okkur og eitt af því sem við höfum viljað bæta er að koma betur út í þriðja leikhluta.”

„Við erum að meðaltali að vinna alla leikhluta nema þriðja leikhlutann og þegar maður er kominn með lið á kaðlana, þá verður maður að vera flinkur að lóga eins og minkur í móa, eins og skáldið sagði.”

„Mér fannst brjóta mótspyrnuna á bak aftur þegar hún var til staðar. Þeir skiptu yfir í svæði og við brutum það. Við erum nokkuð ánægðir og voru meðvitaðir um KR-leikinn á sunnudag. Við hvíldum mannskapinn í síðari hálfleik.”

Þegar Stjarnan og KR mætast er ávallt mikið fjör og mikil læti. Hrafn er klár í bátana fyrir sunnudaginn.

„Það er alltaf gaman að fara í DHL og við ætlum að reyna skemmta okkur á sunnudaginn líka,” sagði Liverpool-maðurinn að lokum sem bíður væntanlega spenntur fyrir framan sjónvarpið annað kvöld þegar Liverpool fær granna sína í Everton í heimsókn.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira