Umfjöllun og viðtöl: Njarðvík - KR 69-73 | Iðnararsigur Íslandsmeistaranna

Magnús Einþór Áskelsson skrifar
Kristófer Acox var öflugur í kvöld.
Kristófer Acox var öflugur í kvöld. vísir/eyþór
KR-ingar unnu iðnaðarsigur á Njarðvík í Ljónagryfjunni í kvöld 73-69 í hörku leik.

Heimamenn byrjuðu leikinn af krafti og leiddu fyrstu mínúturnar en KR-ingar voru fljótir að koma sér inn í leikinn. Eftir að liðin höfðu skipst á að hafa forskotið leiddu heimamenn eftir fyrsta leikhluta 18-17. Liðin héldu áfram að dansa í öðrum leikhluta sem var gríðarlega jafn, gríðarlega barátta og lítil gæði. KR-ingar náðu loks forskoti í lok leikhlutans og leiddu í hálfelik 37-40.

Njarðvíkingar skoruðu strax í fyrstu sókn þriðja leikhlutans og minnkuðu muninn í eitt stig. Næstu mínútur einkenndust af mörgum mistökum og virtist sem lok hefði verið sett á körfurnar í Njarðvík Gestirnir náðu loks að skora þegar tæpar fimm mínútur voru liðnar af leikhlutanum og geta heimamenn bitið sig í handabökin að hafa ekki nýtt betur þau sóknarfæri sem gáfust á þessum kafla. Leikurinn hélt því áfram að vera í járnum og héldu KR-ingar naumu forkskoti fyrir fjórða leikhluta, 51-53.

Í fjórða leikhluta byrjaði sóknarleikur heimamanna að hiksta. Mikið var um einstaklingsframtök sem gengu ekki upp og eins náðu þeir ekki að virkja Terrell Vinson eins og áður í leiknum. Jón Arnór Stefánsson fékk skurð á höku og þurfit að yfirgefa völlinn en það virtist ekki hafa mikil áhirf á leik gestanna.

Stórar ákvarðanir dómara fóru í skapið á leikmönnum og þjálfurum Njarðvíkur sem fengu á sig tæknivillu á slæmum tíma og KR gekk á lagið og náði mest átta stiga forskoti. Heimamenn reyndu allt sem þeir gátu til að komast aftur inn í leikinn en urðu að láta játa sig sigraða, lokatölur 69-73.

Af hverju vann KR?

Njarðvíkingar voru sjálfir sér verstir í þessum leik, klúðruðu auðveldum sniðskotum og töpuðu boltanum klaufalega allt of oft. Varnarleikur liðisins var góður en sóknarleikurinn, þá sérstaklega í fjórða leikhluta slakur. KR-ingar gengu á bragðið og og skiluðu reynslumiklum iðnaðarsigri í lokinn.

Hverjir stóðu upp úr?

Hjá Njarðvík spilaði Terrell Vinson manna best skoraði 30 stig og reif niður 14 fráköst, en það sárlega vantaði meira framlag frá fleiri leikmönnum Njarðvíkur í kvöld. Hjá KR var  Kristófer Acox var öflugur  með 21 stig og 8 fráköst. Jalen Jenkins átti einnig ágætis innkomu en hann skoraði 14 stig.

Hvað gekk illa?

Sóknarleikur beggja liða var ekki góður í kvöld, mikið um mistök sem vógu ansi mikið þegar upp var staðið.

Tölfræði sem vekur athygli

Njarðvík vann frákastabaráttuna í kvöld, Njarðvík var með miklu betri þriggja stiga nýtingu eða 42% á móti 17%.  Njarðvík tapaði 19 boltum á móti 13 sem vóg þungt í lokinn.

Hvað gerist næst?

Njarðvík fær Þór Þorlákshöfn í heimsókn í Ljónagryfjuna næstkomandi Mánudagskvöld meðan að KR-ingar fá Stjörnuna í heimsókn í DHL höllina á Sunnudagskvöldið.

Njarðvík-KR 69-73 (17-18, 37-40, 51-53, 69-73)

Njarðvík: Terrell Vinson 30/14 fráköst, Maciek Baginski 12, Logi Gunnarsson 12, Kristinn Pálsson 5, Snjólfur Marel Stefánsson 3/13 fráköst, Oddur Rúnar Kristinsson 3, Ragnar Nathanaelsson 2 fráköst, Ragnar Helgi Friðriksson 2, Vilhjálmur Theódorsson 0 ,Brynjar Þór Guðnasson 0,Gabríel Sindri Möller 0, Veigar Páll Alexandersson 0.

KR: Kristófer Acox 21/8 fráköst, Jalen Jenkins 14, Darri Hilmarsson 12, Brynjar Þór Björnsson 12, Pavel Ermolinskij 7, Alen Carter 4, Björn Kristjánsson 2, Jón Arnór Stefánsson 1, Orri Hilmarsson 0, Andrés Ísak Hlynsson 0, Benedikt Lárusson 0.

Daníel Guðmundsson: Við vorum „off“ sókanarlega

Daníel Guðmundsson þjálfari Njarðvíkur var svekktur í leikslok og var virkilega ósáttur með það að halda KR-ingum undir áttatíu stigum en ná samt ekki að vinna leikinn.  

„Þetta var bara súrt en ég er virkilega stoltur af strákunum, það eru mörg atriði sem fóru okkur í hag sérstaklega í fyrri hálfleik þar sem við klikkum einhverjum þrem fjórum sniðskotum og klikkuðum í lok leiks á sniðskoti og þetta er bara mjög súrt. Ég er bara fúll yfir því við erum að halda KR undir áttatíu stigum og þá ættum við að vera sigurstranglegri en við vorum bara mjög „off“ sóknarlega og þeir gera náttúrulega vel í vörn en við áttum samt að finna fleiri leiðir til að koma boltanum ofaní körfuna,” sagði Daníel.

Ýmsar ákvarðanir dómarana í kvöld fóru í skapið og leikmönnum og þjáfurum Njarðvíkur í kvöld og voru nokkrir dómar sem heimamönnum fannst vegið að sér. Daníel fannst súrt að þessar ákvarðanir féllu ekki þeim í hag.

„Frá mínu sjónarhorni séð fer boltinn í vírinn á uppleiðinni og það eru bara þrjú stig og svo í kjölfarið finnst mér óíþróttamannsleg villa þegar Terrell fer upp með boltann og það var ekki dæmt. Í kjölfarið fæ ég tæknivillu kannski skiljanlega en mér fannst virkilega súrt að þessar ákvarðanir féllu okkur ekki í hag en það er svo stutt á milli í þessu því að það munar bara fjórum stigum í lokin,” sagði Daníel.



Finnur Stefánsson: Jólamatsbragur á þessu

Finnur Stefánsson þjáfari KR var ánægður að hafa náð í stigin tvö þrátt fyrir að sínir menn hafi ekki spilað vel í kvöld og notaði orðið jólamatsbragur sem var sennilega mjög lýsandi fyrir leikinn í kvöld.

„Þetta hafðist er kannski rétta leiðin til að segja það. Þetta var langt í frá að vera fallegur leikur en við tökum stigin tvö og ég er sáttur með það að taka þau án þess að spiila glimarandi bolta. Við vorum ryðgaðir og jólamatsbragur á þessu, hamborgarhryggurinn kannski aðenis of þungur því þetta var bara lélegt,” sagði Finnur.

Aðspurður hvort að það væri ekki ánægjulegt að fá Jón Arnór aftur á parkertið sagðist Finnur vera ánægður að endurheimta sinn mann aftur enda verið lengi á hliðarlínunni.

„Já klárlega, hann er búinn að vera spenntur og við spenntir að fá hann þetta er búið að vera langur tími sem hann er búinn að vera á hliðarlínunni. Maður sér á honum að hann á eftir að komast í leikæfinguna en það var gott að fá þennan fyrsta leik undir beltið. Við vitum hvað hann er að fara að gefa okkur og við vitum hvernig hann er. Hann verður flottur þegar líður á,” sagði Finnur.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira