Umfjöllun og viðtöl: Þór Ak. - Haukar 74-96 | Toppliði ekki í miklum vandræðum fyrrir norðan

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Kári Jónsson, leikmaður Hauka.
Kári Jónsson, leikmaður Hauka. Vísir/Anton
Haukar endurheimtu toppsætið í kvöld þegar þeir unnu auðveldan sigur á Þórsurum í Íþróttahöllinni á Akureyri. Haukar höfðu frumkvæðið frá upphafi til enda og unnu að lokum 22 stiga sigur, 74-96.

Af hverju unnu Haukar?

Þórsarar mættu einfaldlega ofjörlum sínum og kom gæðamunur liðanna berlega í ljós í kvöld. Jafnvel þó tilfinningin hafi verið sú að Haukar ætluðu sér ekki að eyða mjög mikilli orku í verkefnið tókst Þórsurum ekkert að stríða toppliðinu.

Þó Þórsarar séu í fallsæti hafa þeir alltaf sýnt klærnar og verið baráttuglaðir í leikjum sínum. Sá andi var hins vegar ekki til staðar í kvöld og virkaði Þórsliðið andlaust strax í upphafi leiksins.

Hafnfirðingar gátu því leyft sér að taka lítið á því en vinna samt afskaplega sannfærandi sigur. Við þetta má bæta að Haukar hvíldu einn af lykilmönnum sínum þar sem Finnur Atli Magnússon ferðaðist ekki með liðinu til Akureyrar.

Hverjir stóðu upp úr?

Í fjarveru Finns Atla fékk Breki Gylfason fleiri mínútur og aukna ábyrgð í sóknarleiknum. Hann stóð svo sannarlega undir því og skilaði niður nítján stigum á rúmlega tuttugu mínútum. Klikkaði varla skoti. Það fór mikið fyrir Hauki Óskarssyni þegar gestirnir stungu Þórsara af og hann endaði leikinn sem stigahæsti leikmaður Hauka.

Hvað gekk illa?

Frammistaða Þórs á báðum endum vallarins var hreinlega léleg og líklega það versta sem liðið hefur sýnt í vetur, á heimavelli hið minnsta. Þórsurum til varnar voru þeir vissulega að mæta sjóðheitum Haukum sem eru að flestra mati besta lið landsins um þessar mundir.

Þórsliðið virkaði sem illa smurð vél sem er kannski eðlilegt í ljósi þess að Nino Johnson var að leika sinn fyrsta leik fyrir liðið og virðist enn eiga nokkuð í land með að læra á liðsfélaga sína.

Hvað er næst?

Bæði lið fá afar lítinn tíma til endurheimtar þar sem Þórsarar heimsækja Keflavík á sunnudag á meðan Haukar fá Grindavík í heimsókn.



Þór Ak.-Haukar 74-96 (18-25, 20-22, 13-32, 23-17)

Þór Ak.: Pálmi Geir Jónsson 17/8 fráköst, Nino D'Angelo Johnson 15/7 fráköst, Hilmar Smári Henningsson 10, Júlíus Orri Ágústsson 7, Ingvi Rafn Ingvarsson 6/4 fráköst, Einar Ómar Eyjólfsson 5, Ragnar Ágústsson 5, Sindri Davíðsson 4/4 fráköst, Hreiðar Bjarki Vilhjálmsson 3, Bjarni Rúnar Lárusson 2/6 fráköst, Atli Guðjónsson 0, Sigurður Traustason 0.

Haukar: Haukur Óskarsson 21/6 fráköst, Breki Gylfason 19, Paul Anthony Jones III 17, Kári Jónsson 14/4 fráköst/8 stoðsendingar, Kristján Leifur Sverrisson 10/8 fráköst, Emil Barja 8/7 fráköst, Hjálmar Stefánsson 7/6 fráköst, Steinar Aronsson 0, Sigurður Ægir Brynjólfsson 0, Arnór Bjarki Ívarsson 0, Alex Rafn Guðlaugsson 0.

Dómarar: Sigmundur Már Herbertsson, Einar Þór Skarphéðinsson, Aðalsteinn Hrafnkelsson

Ívar Ásgrímsson, þjálfari HaukaVísir/Ernir
Ívar Ásgrímsson: Vissum að við þyrftum bara að spila okkar leik

Ívar Ásgrímsson, þjálfari Hauka, var sigurreifur í leikslok enda með lið sitt á toppnum í blússandi sigursveiflu.

„Mér fannst við mjög slakir í fyrri hálfleik, sérstaklega varnarlega og hittum ekkert voðalega vel heldur. Um leið og við hertum vörnina í þriðja leikhluta kom sóknarleikurinn með. Ég held við höfum klárað þetta á einhverjum þremur mínútum í þriðja leikhluta og þá var leikurinn búinn.“

„Við erum með betra lið en Þór og við vissum að við þyrftum bara að spila okkar leik til að vinna en ef við yrðum kærulausir gæti þetta orðið erfitt.“

Mikið álag er á Haukum um þessar mundir. Liðið mætir Grindavík á sunnudag og leikur svo í bikarnum næstkomandi miðvikudag. Ívar hefur engar áhyggjur af leikjaálaginu.

„Við undirbjuggum okkur vel yfir jólin og hvíldum okkur líka vel. Æfingin á morgun verður bara teygjur og vídeó. Grindavíkurliðið var líka að spila í kvöld svo það er bara jafnt fyrir bæði lið,“ sagði Ívar að lokum.

Hjalti Þór Vilhjálmsson, þjálfari Þórs.Vísir/Ernir
Hjalti Þór: Höfðum ekki trú á einu né neinu

Hjalti Þór Vilhjálmsson, þjálfari Þórs, var hundfúll í leikslok og gagnrýndi hugarfar liðsmanna sinna.

„Við vorum gjörsamlega andlausir frá fyrstu sekúndu. Við komum inn og höfðum ekki trú á einu né neinu og ætluðum ekki einu sinni að njóta þess að spila körfubolta þó við séum að æfa þetta til að hafa gaman af þessu. Þá fer þetta bara svona.“

Nino Johnson var að leika sinn fyrsta leik fyrir Þór. Hann skoraði fimmtán stig og tók sjö fráköst. Hvað fannst Hjalta um frammistöðu kappans?

„Þetta er bara fyrsti leikur og hann var fínn í fyrri hálfleik. Tók bara eitt skot í síðari hálfleik og var voða lítið inn í flæðinu en hann á bara eftir að koma til. Hann kann ekki öll kerfin okkar en það kemur.“

„Ef hann leggur á sig og gerir hlutina af krafti mun hann hjálpa okkur. Þetta er svaka skrokkur. Hann getur skotið og getur fengið boltann undir körfunni. Það ætti enginn í íslensku deildinni að ráða við hann þar en hann verður þá að leggja á sig,“ sagði Hjalti.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira