Erlent

Mueller vill ræða við Trump

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. Vísir/Getty
Umræður um að sérstaki saksóknarinn Robert Mueller muni ræða við Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, hafa átt sér stað að undanförnu á milli starfsmanna Alríkislögreglu Bandaríkjanna og lögmanna Trump. Lögmenn forsetans hafa rætt það hvernig þeir gætu komið í veg fyrir eða takmarkað slíkt samtal.

Mueller rannsakar afskipti yfirvalda í Rússlandi af forsetakosningunum í Bandaríkjunum 2016 og mögulegt samstarf framboðs Trump með þeim afskiptum. Hann var skipaður í embætti sérstaks saksóknara eftir að Trump viðurkenndi í sjónvarpsviðtali að hafa rekið James Comey, fyrrverandi yfirmann Alríkislögreglunnar, vegna rannsóknar stofnunarinnar á afskiptum Rússa af kosningunum sem Comey leiddi.

Rannsókn Mueller snýr meðal annars að því hvort að Trump hafi reynt að hindra framgang réttvísarinnar með því að reka Comey.

Sjá einnig: Vísbendingar um að Trump hafi reynt að hindra framgang réttvísinnar

Viðræður á milli rannsakenda Mueller og lögmanna Trump hófust í desember, samkvæmt fjölmiðlum ytra, og munu þær enn standa yfir.



Heimildarmaður Washington Post segir að forsetinn sé tilbúinn í slíkt samtal og hann telji að með því gæti hann stöðvað umræðu og vangaveltur um mögulegt samstarf framboðsins með Rússum.



Lögmenn Trump hafa þó áhyggjur og eru ekki tilbúnir til að láta hann setjast niður með Mueller og rannsakendum hans. Meðal þess sem þeir hafa verið að skoða er að hvort Trump gæti mögulega svarað spurningum rannsakenda skriflega.

Annar möguleiki er að Trump sendi frá sér eiðsvarna yfirlýsingu í stað þess að setjast niður með rannsakendum.

Lögmenn Trump hafa ekki tjáð sig um málið að öðru leyti en að þeir hafi og ætli sér að starfa að fullu með rannsakendum Mueller.


Tengdar fréttir

Trump segir orðspor FBI í molum

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, vandar bandarísku alríkislögreglunni FBI ekki kveðjurnar á Twitter síðu sinni í dag. Hann segir orðspor FBI í molum.

Bannon segir umdeildan fund Trump yngri vera landráð

"Þremur æðstu mönnum framboðsins fannst það góð hugmynd að funda með fulltrúum erlendrar ríkisstjórnar í Trump-turni, í fundarherberginu á 25 hæð og án þess að vera með lögmenn viðstadda.“

Óttast brottrekstur Mueller í kjölfar árása

Einhverjir stuðningsmenn Trump hafa jafnvel kallað eftir því að gervallri forystu Alríkislögreglu Bandaríkjanna, FBI, verði skipt út og að nýr sérstakur saksóknari verði skipaður til að rannsaka Alríkislögregluna.

Með tugi þúsunda tölvupósta frá Trump-teyminu

Robert Mueller, sérstakur rannsakandi bandaríska dómsmálaráðuneytisins, er sagður hafa komist yfir tugi þúsunda tölvupósta frá teymi Donald Trump, forseta Bandaríkjanna,




Fleiri fréttir

Sjá meira


×