Erlent

Tætingslegu jólatré Rómaborgar líkt við klósettbursta

Atli Ísleifsson skrifar
Barrnálarnar voru ekki lengi að falla af jólatré Rómarborgar á Feneyjatorgi.
Barrnálarnar voru ekki lengi að falla af jólatré Rómarborgar á Feneyjatorgi. Vísir/Getty
Íbúar í Rómaborg hafa líkt og á síðasta ári hæðst að jólatré sem borgaryfirvöld hafa komið upp á Piazza Venezia. Trénu hefur ýmist verið líkt við reyttan fugl eða klósettbursta og segja íbúar tætingslegt tréð vera skýrt merki um hrörnun borgarinnar á síðustu árum.

Kostnaður við uppsetningu trésins var um 50 þúsund evrur, um sex milljónir króna. Það er rúmlega tuttugu metrar á hæð og var flutt sérstaklega úr ítölsku Ölpunum. Í stað þess að gleðja íbúa og gesti borgarinnar líkt og ætlunin var hefur það hins vegar orðið að táknmynd um slælegan rekstur borgarinnar á síðustu árum.

Eftir að trénu var komið upp þann 8. desember leið ekki á löngu þar til að barrnálarnar fóru að falla. Eftir stendur magurt tré sem hefur orðið skotspónn grínista og ósáttra borgarbúa.

Sjá einnig: Íbúar dansks bæjar ýmist reiðir eða skellihlæjandi vegna jólatrés bæjarins

Tréð hefur fengið viðurnefnið „Spelacchio“ sem í grófri þýðingu má nefna sjúskaður eða sköllóttur.

Umræða hefur farið fram um hvað hafi nákvæmlega farið úrskeiðis. Talsmenn flutningsþjónustunnar segja tréð hafa verið í fullkomnu ásigkomulagi þegar því var skilað til höfuðborgarinnar frá Dólómítafjöllum, en ítalskir fjölmiðlar hafa heimildir fyrir því að það hafi ekki verið nægilega varið þegar það var flutt suður á bóginn.

Andstæðingar Virginia Raggi, borgarstjóra Rómar, hafa einnig nýtt tækifærið og sagt tréð vera enn eitt dæmið um hrörnun borgarinnar þar sem almenningsgarðar hafa fallið í órækt og vegir verið í niðurníðslu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×