Erlent

New Horizons í dvala fyrir stefnumót við íshnullung

Kjartan Kjartansson skrifar
New Horizons stefnir nú hraðbyri út í frosinn útjaðar sólkerfisins til fundar við leyndardómsfullan íshnullung.
New Horizons stefnir nú hraðbyri út í frosinn útjaðar sólkerfisins til fundar við leyndardómsfullan íshnullung. Vísir/AFP

Bandaríska geimfarið New Horizons hefur verið sett í dvala á meðan það ferðast lengra út í Kuipersbeltið þar sem það á stefnumót við frosið fyrirbæri við lok næsta árs. New Horizons, sem flaug fram hjá Plútó fyrir tveimur árum, verður vakið af blundi í sumar.



Áfram verður kveikt á flugtölvu New Horizons sem fylgist með ástandi geimfarsins og sendir skilaboð til jarðar einu sinni í viku. Slökkt er á öðrum tækjum og tólum geimfarsins á meðan það er í dvala, að því er segir í frétt á vefnum Spaceflight Insider. Geimfarið fór í dvala á fimmtudag.



New Horizons var fyrsta geimfarið til að fljúga fram hjá Plútó í júlí 2015 og sendi þaðan fyrstu skýru myndirnar sem menn hafa fengið af yfirborði dvergreikistjörnunnar. Næsta takmark þess er fyrirbærið MU69 í Kuipersbeltinu, yst í sólkerfinu okkar.



Áætlað er að geimfarið þjóti fram hjá íshnettinum um áramótin 2018 til 2019. Geimfarið verður vakið af dvala í júní fyrir lokakafla aðflugsins.



New Horizons var skotið á loft árið 2006. Geimfarið er nú um 6,2 milljarða kílómetra frá jörðinni. Tekur það fjarskiptasendingar þess fimm klukustundir og 42 mínútur að ferðast til jarðarinnar á ljóshraða.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×