Innlent

Kröfu Ólafs hafnað í héraðsdómi

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Ólafur Ólafsson athafnamaður.
Ólafur Ólafsson athafnamaður. vísir/vilhelm
Kröfu Ólafs Ólafssonar athafnamanns um að fella úr gildi úrskurð endurupptökunefndar, þar sem beiðni hans um endurupptöku í Al Thani-málinu svokallaða var hafnað, hefur verið hafnað af Héraðsdómi Reykjavíkur. Ólafur var sakfelldur fyrir markaðsmisnotkun í málinu árið 2013.

Dómi héraðsdóms í Al Thani-málinu var áfrýjað til Hæstaréttar Íslands og var Ólafur sýknaður af sakargiftum um umboðssvik, hylmingu og peningaþvætti í febrúar 2015. Hann var hinsvegar sakfelldur fyrir markaðsmisnotkun og dæmdur í fjögurra og hálfs árs fangelsi.

Að því er fram kemur í dómi héraðsdóms reisir Ólafur kröfu sína um ógildingu úrskurðar endurupptökunefndar í fyrsta lagi á því nefndarmaðurinn Kristbjörg Stephensen hafi verið vanhæf til að taka þátt í ákvörðun um endurupptökubeiðni hans.

Þá byggir Ólafur kröfu sína einnig á því að verulegar líkur séu á því að sönnunargögn í málinu hafi verið rangt metin með þeim afleiðingum að það hafði áhrif á niðurstöðu þess. Niðurstaða endurupptökunefndar, sem hafi hafnað því að sú væri raunin, sé því röng.

Héraðsdómur fellst á hvoruga framangreindra málsástæðna. Ríkissaksóknari og íslenska ríkið eru því sýknuð af kröfum Ólafs. Hann er jafnframt dæmdur til að greiða málskostnað, sem hæfilega var metinn 500 þúsund krónur til hvors þeirra, samtals eina milljón króna.

Al-Thani málið á rætur að rekja til hlutabréfakaupa sheikh Mohammad Bin Khalifa Al-Thani hinn 22. september 2008 en félag hans keypti 5,01 prósenta hlut í Kaupþingi banka fyrir 25,7 milljarða króna með láni frá bankanum. Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, og Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, voru einnig dæmdir í fangelsi fyrir aðild sína að málinu.

Málið er eitt stærsta efnahagsbrotamál sem hefur verið ákært í ekki síst vegna umfangs þess, flækjustigs, fjölda vitna o.fl. Það var til rannsóknar á þriðja ár.


Tengdar fréttir

Ólafur stefnir íslenska ríkinu

Ólafur Ólafsson fjárfestir hefur stefnt embætti ríkissaksóknara og íslenska ríkinu fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×