Viðskipti innlent

Útilokar lög á verkfall flugvirkja

Daníel Freyr Birkisson skrifar
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgönguráðherra.
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgönguráðherra. visir/vilhelm
Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segir launakröfur flugvirkja algjörlega óraunhæfar og langt umfram þess svigrúm sem til staðar er. Samgönguráðherra segir það ekki í stöðunni að setja lög á boðað verkfall þeirra sem fyrirhugað er á sunnudag. Fréttastofa Ríkisútvarpsins greinir frá þessu.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgönguráðherra, kveðst hafa sent flugvirkjum hjá Icelandair skýr skilaboð um að það sé ekki á dagskrá að setja lög á fyrirhugað verkfall þeirra vegna kjaradeilu.

Hann segist enn fremur hafa áhyggjur af deilunni og að hann hafi hvatt deiluaðila til að leggja sig alla fram og til þess að niðurstaða fáist í málið.

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir kröfurnar algjörlega óraunhæfar.

„Það er algjörlega útilokað að einn hópur geti skorið sig úr þegar kemur að kjarasamningum og ég segi við þig að kröfur flugvirkja eru algjörlega óraunhæfar og langt umfram það svigrúm sem er til staðar til launahækkana,“ segir Halldór Benjamín og bætir við: „Það sem við viljum ekki að gerist er að allsherjarverkfall hefjist hér á sunnudaginn með tilheyrandi skaða fyrir þá sem eiga flug bókuð á þeim tíma,“ segir Halldór í samtali við RÚV.

Haldinn verður fundur í deilunni hjá ríkissáttasemjara kl. 15:30 í dag, en fyrirhugað verkfall hefst sem fyrr segir á sunnudag kl. 06:00.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×