Innlent

Hjálpræðisherinn má reisa nýjar höfuðstöðvar sínar á Suðurlandsbraut

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Suðurhlið nýrra höfuðstöðva Hjálpræðishersins í Sogamýri.
Suðurhlið nýrra höfuðstöðva Hjálpræðishersins í Sogamýri. Mynd/Hans Olav Andersen
Byggingarfulltrúinn í Reykjavík hefur heimilað Hjálpræðishernum að reisa höfuðstöðvar á tveimur hæðum á Suðurlandsbraut 32-34.

Byggingin sem um ræðir er samtals 1.531 fermetri á tveimur hæðum. Er það eilítið stærra en fyrrverandi höfuðstöðvar við Kirkjustræti sem Hjálpræðisherinn seldi fyrir tæpum tveimur árum á 630 milljónir króna. „Það var ósk um að gera eftirminnilegt hús utan um þessa sérstöku starfsemi sem verður á áberandi stað,“ segir Hans-Olav Andersen sem hannaði nýju höfuðstöðvarnar. Lóðin stendur við suður­mörk Sogamýrar, nærri Miklubraut.

Hans-Olav segir nokkurn tíma hafa farið í að gera sér grein fyrir þeim þörfum sem byggingin þurfi að uppfylla. Við því sé að búast að það sem eftir lifir vetrar verði nýtt til frekari hönnunarvinnu og gerð útboðsgagna. Framkvæmdir gætu þá hafist næsta sumar.

„Markmiðið er að þetta verði farið af stað næsta sumar eða haust,“ segir Hans sem bendir þó á að mikil þensla sé á byggingamarkaði og ekki hlaupið að því að finna verktaka.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×