Umfjöllun og viðtöl: Þór Ak 79-83 Grindavík | Grindvíkingar sterkari í alíslenskum slag

Arnar Geir Halldórsson í Höllinni á Akureyri skrifar
Ólafur Ólafsson, leikmaður Grindavíkur.
Ólafur Ólafsson, leikmaður Grindavíkur. Vísir/Eyþór
Það var sjaldséð sjón þegar Þór Akureyri fékk Grindavík í heimsókn í Íþróttahöllina á Akureyri í kvöld þar sem hvorugt lið tefldi fram erlendum leikmanni.

Þórsarar léku án Marques Oliver en hann mun ekki leika meira með liðinu í vetur vegna meiðsla og þá sendu Grindvíkingar Rashad Whack heim á dögunum og eru í leit að nýjum leikmanni. Þórsarar tefldu hins vegar fram hinum unga Hilmari Smára Henningssyni í fyrsta sinn og átti hann góða innkomu af bekknum. Klárt mál að koma piltsins mun hjálpa Þór í baráttunni eftir áramót.

Jafnræði var með liðunum framan af leik en Grindvíkingar stigu á bensíngjöfina undir lok annars leikhluta og fóru inn í leikhléið með þrettán stiga forystu. Grindvíkingar héldu áfram að auka forystuna í þriðja leikhluta og virtust um tíma ætla að kafsigla heimamönnum.

Það gerðist svo sannarlega ekki því Þórsurum tókst með mikilli elju að búa til æsispennandi lokamínútur en fór að lokum svo að Grindavík vann fjögurra stiga sigur, 79-83.

Afhverju vann Grindavík?

Grindvíkingar náðu góðri forystu í þriðja leikhluta og því fór sem fór. Grindvíkingar voru þrettán stigum yfir í hálfleik sem er frekar mikið miðað við gang leiksins framan af. Enginn glansleikur hjá sterku liði Grindavíkur. Gestirnir áttu mjög auðvelt með að komast inn í teiginn hjá Þórsurum og þegar Grindvíkingar fóru að skjóta örlítið betur utan af velli byggðu þeir upp gott forskot og náðu mest 19 stiga forystu.

Grindvíkingar slökuðu all verulega á klónni í síðasta leikhlutanum og voru í raun heppnir að sleppa með skrekkinn undir lokin.

Það eru stór skörð höggvin í lið Þórs enda Marques Oliver verið ótrúlega afkastamikill í vetur. Þá var augljóst að Ingvi Rafn er ekki búinn að ná sér fullkomlega af meiðslum og munar um minna í sóknarleik Þórs. Þrátt fyrir það sýndu þeir hetjulega baráttu þegar öll sund virtust lokuð og fengu tækifæri til að jafna leikinn undir lokin.

Bestu menn vallarins

Grindvíkingar gátu ítrekað sótt sér auðvelda körfu með að ráðast á körfuna hjá Þórsurum þar sem Sigurður Gunnar Þorsteinsson og Ólafur Ólafsson réðu algjörlega ríkjum undir körfunni. Þeir voru engu að síður afar óstöðugir í sínum leik líkt og allt Grindavíkurliðið og gerðu sig báðir seka um klaufaleg mistök sem voru nálægt því að reynast dýrkeypt. Þegar mest var undir leituðu Grindvíkingar til Sigurðs undir körfunni og hann dró liðið í land. Dagur Kár Jónsson býr yfir óumdeildum gæðum og sýndi reglulega góða spretti.

Í liði heimamanna var Pálmi Geir Jónsson afkastamestur, skilaði 25 stigum niður og tók 14 fráköst.



Hvað gekk illa?

Stóru menn Þórsara skiluðu flottum tölum sóknarlega en voru í miklum vandræðum varnarlega. Líklega ósanngjarnt að benda á þá enda var það varnarleikur liðsins í heild sem gerði það að verkum að Grindvíkingar fengu fjöldann allan af mjög auðveldum körfum. 



Tölfræði sem vekur athygli


Tölfræðiskýrslan segir að Grindavík hafi stolið alls 20 boltum í leiknum. Það er mjög mikið en þar af var Ólafur Ólafsson með sex stolna bolta.

Hvað er næst?

Jólafrí sem bæði lið munu nýta til að ganga frá samningum við bandarískan leikmann fyrir seinni hluta mótsins. Þjálfarar liðsins sögðu báðir í viðtölum eftir leik að sú vinna væri langt komin og því má reikna með að nýir Kanar spili með Þór annars vegar, þegar liðið fær Hauka í heimsókn 5.janúar og Grindavík hins vegar, þegar liðið heimsækir Þór Þorlákshöfn sama dag.



Þór Ak.-Grindavík 79-83 (18-23, 19-27, 18-17, 24-16)

Þór Ak.: Pálmi Geir Jónsson 25/11 fráköst, Ingvi Rafn Ingvarsson 15, Bjarni Rúnar Lárusson 14/4 fráköst, Hilmar Smári Henningsson 11, Sindri Davíðsson 6/5 fráköst, Einar Ómar Eyjólfsson 5/4 fráköst, Hreiðar Bjarki Vilhjálmsson 3/5 fráköst, Ragnar Ágústsson 0, Kolbeinn Fannar Gíslason 0, Baldur Örn Jóhannesson 0, Júlíus Orri Ágústsson 0, Svavar Sigurður Sigurðarson 0.

Grindavík: Sigurður Gunnar Þorsteinsson 21/7 fráköst, Dagur Kár Jónsson 21/4 fráköst/5 stoðsendingar, Ólafur Ólafsson 14/6 stolnir, Ingvi Þór Guðmundsson 7/6 fráköst/7 stoðsendingar/5 stolnir, Þorsteinn Finnbogason 7, Kristófer Breki Gylfason 7, Ómar Örn Sævarsson 3/5 fráköst, Hinrik Guðbjartsson 3, Jens Valgeir Óskarsson 0, Sverrir Týr Sigurðsson 0.



Jóhann Þór Ólafsson: Chuck Garcia búinn að frétta að Cintamani sé að sponsa



Jóhann Þór Ólafsson, þjálfari Grindavíkur var kampakátur með stigin tvö en átti erfitt með að útskýra niðursveifluna í fjórða leikhluta.

,,Ég er fyrst og fremst ánægður með sigurinn. Við gerðum okkur erfitt fyrir en númer eitt, tvö og þrjú var að ná þessum tveimur stigum.”

,,Það er erfitt að segja. Viðhorf okkar til leiksins var ekki gott. Menn voru kærulausir og mjúkir á báðum endum. Heilt yfir vorum við bara lélegir í fjórða leikhluta en ljósir punktar í þriðja leikhluta og fyrri hálfleikur var svosem alveg góður.”

Jóhann segir það hafa verið skrýtið að setja leikinn upp á íslensku enda ekki vanalegt að íslensk körfuboltalið í efstu deild leiki án erlends leikmanns.

,,Það eina sem er öðruvísi er að það er erfitt að venja sig á að tala íslensku þegar maður er að tala við leikmennina og setja leikinn upp á íslensku en annars ekkert mál.”

En hvernig standa málin í útlendingaleitinni?

,,Það er ekkert komið á hreint. Það eru ýmis nöfn á blaði. Chuck Garcia er meira að segja búinn að frétta að Cintamani er farið að sponsa svo hann vill ólmur koma.”

Hjalti Þór Vilhjálmsson: Leiðinlegasta við starfið að leita að Kana

Hjalti Þór Vilhjálmsson, þjálfari Þórs, var að vonum vonsvikinn eftir æsispennandi lokamínútur.



,,Ég er svekktur. Við áttum séns í lokin en fyrri hálfleikurinn var bara slakur. Varnarlega vorum við gjörsamlega á hælunum og það vantaði ákveðna geðveiki sem við höfum verið að sýna á heimavelli. Það er ástæðan fyrir því að þeir voru 13 stigum yfir í hálfleik og komast svo 19 stigum yfir. Þá kviknaði á okkur og við byrjuðum að spila vörn.

,,Kannski vantaði bara trú eða eitthvað svoleiðis. Ég veit það ekki alveg. Það var spurningamerki með Ingva Rafn fyrir leikinn og Hilmar að koma nýr inn. Það vantaði smá að menn væru betur slípaðir saman.”

Þórsarar eyða jólunum í fallsæti og segir Hjalti að fríið verði nýtt vel, bæði til æfinga og leikmannakaupa.

,,Jólafríið verður bara nýtt til að æfa. Menn fá væntanlega frí jóladag og aðfangadag. Varðandi kanamálin þá hafa þetta verið hundleiðinlegar tvær vikur. Það er það leiðinlegasta við þetta starf að leita að Kana en ég er búinn þrengja þetta niður í einhverja þrjá og ég ætla að reyna að klára þetta fyrir helgi,” sagði Hjalti að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira