Erlent

Með tugi þúsunda tölvupósta frá Trump-teyminu

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Robert Mueller hefur rannsakað meint afskipti Rússa af forsetakosningunum.
Robert Mueller hefur rannsakað meint afskipti Rússa af forsetakosningunum. Vísir/Getty
Robert Mueller, sérstakur rannsakandi bandaríska dómsmálaráðuneytisins, er sagður hafa komist yfir tugi þúsunda tölvupósta frá teymi Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, í tengslum við rannsókn á meintum afskiptum Rússa af forsetakosningunum og mögulegum tengslum við forsetaframboð Trump.

Tölvupóstarnir eru frá teyminu sem sá um undirbúning embættistöku Trump eftir að hann var kjörinn forseti Bandaríkjanna í nóvember á síðasta ári.

Í frétt BBC segir að talið sé að tölvupóstarnir séu frá tólf meðlinum þess teymis, þar á meðal frá Jared Kushner, tengdasyni Trump og einum helsta ráðgjafi forsetans. Lögfræðingur hópsins segir að Mueller og teymi hans hafi komist yfir tölvupóstana á ólögmætan hátt.

Svo virðist sem að Mueller hafi fengið aðgang að tölvupóstunum í gegnum ríkisstofnun sem sá um skrifstofur og tölvu- og hugbúnað teymisins sem undirbjó embættistöku Trump frá nóvember fram til að hann tók við embætti.

Segir lögfræðingurinn að þessi ríkisstofnun hafi ekki átt rétt á því að senda tölvupóstana til Muellers þar sem hún hafi ekki átt gögnin sem um ræðir. Þá segir lögfræðingurinn einnig að teymið hafi fyrir skömmu verið búið að flokka tölvupóstana frá til afhendingar í síðustu viku en komist þá að því að Mueller hafi haft aðgang að þeim síðan í sumar.

Nú þegar hefur rannsókn Muellers leitt til þess að fjórir einstaklingar hafa verið kærðir í tengslum við rannsóknina á meintum afskiptum Rússa af kosningunum, þar á meðal Michael Flynn og Paul Manafort sem voru nánir samstarfsmenn Trump. Hefur Flynn þegar lýst sig sekan af ákærunni.

Búist er við því að lögmenn forsetans muni í vikunni ræða við Mueller um hver næstu skref rannsóknarinnar verða.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×