Innlent

Forstjóri Icelandair svaraði harðri gagnrýni sem flugfélagið hefur fengið á sig

Birgir Olgeirsson og Jóhann K. Jóhannsson skrifa
„Við vorum allan tímann að reikna með því að við myndum ná að semja,“ sagði Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group, í kvöldfréttum Stöðvar 2 þar sem hann var spurður út í gagnrýni sem Icelandair hefur fengið á sig vegna verkfalls flugvirkja.

Var flugfélagið gagnrýnt á samfélagsmiðlum í dag fyrir slæma upplýsingagjöf og hversu fáir voru starfsmenn voru á söluskrifstofu félagsins í Keflavík í dag.

Björgólfur sagði í kvöldfréttum Stöðvar 2 að þó reiknað hafi verið með að samningar myndu nást hefði flugið verið undirbúið fyrir þessa stöðu.

„Staðan var einfaldlega sú að okkar mati að það væri betra fyrir farþegana að við værum hér,“ sagði Björgólfur og átti þar við að mesta áherslan hafi verið lögð á að manna þjónustuver Icelandair. Á venjulegum degi starfa þar 20 manns en frá því í gær hafa þeir verið meira en fjórfalt fleiri og unnið í öllum rýmum og á öllum borðum.

Hann sagði það algjörlega ljóst að þetta verkfall hafi kostað flugfélagið töluverða fjármuni og svona vinnustöðvun hafi mikil áhrif á rekstur félagsins.

Spurður hversu lengi ástandið geti verið svona, sagði hann það ekki vera langan tíma.

Hann sagði það jafnframt ekki hag félagsins að lög yrðu sett á verkfallið.

„Það yrði langbest fyrir alla aðila að menn nái að leysa stöðuna við samningaborðið,“ sagði Björgólfur sem sagðist jafnframt varla geta hugsað þá hugsun til enda verði það raunin að verkfallið standi fram að jólum. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×