Körfubolti

Segir rangt eftir sér haft

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Andrée Michelsson í leik gegn ÍR.
Andrée Michelsson í leik gegn ÍR. vísir/eyþór
Andrée Michelsson, leikmaður Hattar í Domino's deild karla, segir að rangt hafi verið haft eftir sér í viðtali við Lokaltidningen í Malmö.

Í viðtalinu, sem Vísir fjallaði um í dag, sagðist Andrée vera með betri tölfræði en hann er raunverulega með og að Höttur hafi fallið úr leik fyrir KR í 8-liða úrslitum Maltbikarsins en ekki 1. deildarlið Breiðabliks.

Í samtali við Vísi í dag sagði Andrée að blaðakona Lokaltidningen, sem tók viðtalið við hann, hafi ruglað bikarleiknum gegn Breiðabliki saman við deildarleik gegn KR og það hafi því komið rangt út.

Þá hafi tölfræðin sem Andrée gaf upp í viðtalinu (14 stig, sex fráköst og fimm stoðsendingar að meðaltali í leik) verið tölfræðin sem hann var með á sínu besta tímabili í Svíþjóð en ekki tölfræðin hans í Domino's deildinni í vetur eins og mátti lesa út úr viðtalinu.

Andrée, sem er tvítugur, hefur leikið 10 leiki með Hetti í Domino's deildinni á tímabilinu. Liðið situr á botni deildarinnar og bíður enn eftir sínum fyrsta sigri.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×