Viðskipti innlent

Verkfallið hafði áhrif á ferðir um 20 þúsund flugfarþega

Atli Ísleifsson skrifar
Verkfall flugvirkja Icelandair hófst að morgni 17. desember síðastliðinn.
Verkfall flugvirkja Icelandair hófst að morgni 17. desember síðastliðinn. Vísir/Vilhelm
Fella þurfti niður 64 flug Icelandair, eða um helming allra fluga flugfélagsins, á meðan á verkfalli flugvirkja félagsins stóð yfir. Alls hafði verkfallið áhrif á samtals um 20 þúsund flugfarþega.

Þetta kemur fram í svari Guðjóns Arngrímssonar, upplýsingafulltrúa Icelandair, við fyrirspurn fréttastofu.

Skrifað var undir nýjan kjarasamning í nótt og var verkfallinu frestað um fjórar vikur. Gildir samningurinn til ársloka 2019, en launahækkanir hafa ekki verið gefnar upp. Félagsmenn munu kjósa um samninginn á næstu dögum.

Verkfallið stóð í alls 46 klukkustundir og voru það 260 flugvirkjar hjá Icelandair sem lögðu niður störf. Guðjón segir að enn eigi eftir að taka saman það tjón sem flugfélagið hafi orðið fyrir vegna verkfallsins.

Eftir að verkfallið skall á tók verð hlutabréfa Icelandair skarpa dýfu. Snemma dags í gær höfðu þau farið niður um 3,26 prósent á einum tímapunkti. Þegar þessi frétt er skrifuð hafa þau hins vegar hækkað um 6,23 prósent og nema viðskipti bréfanna 469 milljónum króna.

Reiknað er með að áætlunarflug Icelandair verði komið í eðlilegt horf á morgun.


Tengdar fréttir

Hlutabréf í Icelandair snarhækka eftir að samningar náðust

Hækkunin nemur 6,59 prósentum það sem af er af degi. Samninganefndir Icelandair, Samtaka atvinnulífsins og Flugvirkjafélags Íslands skrifuðu undir nýjan kjarasamning klukkan fjögur í nótt og var verkfalli flugvirkja hjá Icelandair frestað um fjórar vikur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×