Erlent

Trump eftir nýjustu ákæruna: „Alls ekkert samráð“

Kjartan Kjartansson skrifar
Flynn gæti átt yfir höfði sér fimm ára fangelsi fyrir að ljúga að FBI. Talið er að Mueller hafi upplýsingar um fleiri brot og því hafi Flynn kosið að gera samning um samstarf við rannsakendur.
Flynn gæti átt yfir höfði sér fimm ára fangelsi fyrir að ljúga að FBI. Talið er að Mueller hafi upplýsingar um fleiri brot og því hafi Flynn kosið að gera samning um samstarf við rannsakendur. Vísir/AFP
Donald Trump Bandaríkjaforseti neitar enn að nokkurt samráð hafi átt sér stað á milli framboðs hans og Rússa í kosningabaráttunni í fyrra. Fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafi Trump var ákærður í gær fyrir að ljúga að alríkislögreglunni FBI um samskipti sín við rússneskan sendiherra.

„Alls ekkert samráð,“ svaraði Trump við fréttamenn þegar hann var á leið úr Hvíta húsinu í dag, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Michael Flynn, þjóðaröryggisráðgjafi Trump í upphafi forsetatíðar hans, játaði í gær sök um að hafa logið að FBI. Robert Mueller, sérstakur rannsakandi dómsmálaráðuneytisins, hefur lagt fram ákæru gegn honum. Bandarískir fjölmiðlar segja að Flynn hafi samþykkt að vinna með yfirvöldum í rannsókninni á afskiptum Rússa af kosningunum og mögulegu samráði þeirra við framboð Trump.

Flynn var ráðgjafi Trump í kosningabaráttunni. Eftir að Trump tók við sem forseti skipaði hann Flynn sem þjóðaröryggisráðgjafa sinn. Eftir innan við mánuð í starfi steig Flynn til hliðar eftir að í ljós kom að hann hafði ekki greint rétt frá samskiptum sínum við rússneskan sendiherra.

Fjölmiðlar hafa einnig greint frá því að Flynna hafi verið í samskiptum við Rússa í samráði við Jared Kushner, tengdason Trump, sem nú gegnir ýmsum störfum fyrir ríkisstjórnina og fleiri forsvarsmenn framboðsins.

Trump hefur áður lýst ásökunum um samráð við Rússa sem „nornaveiðum“. Sagðist hann meðal annars hafa rekið James Comey úr starfi forstjóra FBI vegna rannsóknarinnar á því. Á meðal þess sem Mueller rannsakar nú er hvort að Trump hafi reynt að hindra framgang réttvísinnar með brottrekstrinum. Áður en hann rak Comey hafði Trump lagt að forstjóranum að láta rannsóknina á Flynn falla niður.


Tengdar fréttir

Flynn lýsir sig reiðubúinn að aðstoða Mueller

Michael Flynn, fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafi Donald Trump Bandaríkjaforseta, lýsti sig sekan fyrir dómi af því að hafa logið að bandarísku alríkislögreglunni. Þá hefur hann samþykkt að aðstoða Robert Mueller, sérstakur rannsakandi dómsmálaráðuneytisins.

Starfsmenn Mueller yfirheyrðu Kushner

Tengdasonur Donald Trump, Jared Kushner, var yfirheyrður af starfsmönnum saksóknarans Robert Mueller fyrr í þessum mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×