Erlent

Trump segir orðspor FBI í molum

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Donald Trump forseti Bandaríkjanna
Donald Trump forseti Bandaríkjanna Vísir/EPA
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, vandar bandarísku alríkislögreglunni FBI ekki kveðjurnar á Twitter síðu sinni í dag. Hann segir orðspor FBI í molum.

Síðustu daga hafa nýjar upplýsingar litið dagsins ljós í rannsókn Roberts Mueller á afskiptum Rússa á forsetakosningunum í Bandaríkjunum í nóvember í fyrra.

Mueller er sagður hafa vikið alríkislögreglumanninum úr rannsóknarteymi sínu um leið og ásakanirnar komu fram.Vísir/Getty
Trump hefur neitað því að kosningateymi hans hafi átt í samráði við Rússa til að ná kjöri. 

Vill endurreisa orðspor FBI

Um helgina bárust fregnir af því að Mueller, sem er fyrrum forstjóri FBI, hafi vikið hátt settum alríkislögreglumanni, sem vann við rannsókna, frá störfum í sumar. Hann hafði skipst á skilaboðum við vinnufélaga sem hægt var að túlka sem andsnúin forsetanum. 

Alríkislögreglumaðurinn sem um ræðir heitir Peter Strozk og var aðstoðaryfirmaður gagnnjósna. Skilaboðin voru send á meðan Strozk vann við rannsókn á tölvupóstnotkun Hillary Clinton, mótframbjóðanda Trump. 

Í röð tísta segir forsetinn að orðspor alríkislögreglunnar sé í molum, það sé allt farið að smella saman varðandi samráð stofnunarinnar og kosningateymis Clinton en að hann ætli sér að endurreisa orðspor FBI.

Talsmaður Mueller staðfestir að Strozk hafi verið færður til um leið og ásakanir komu fram á hendur honum, að því er kemur fram í frétt Reuters.

Fyrir helgi gaf Mueller út fjórðu ákæruna á hendur bandamanni Trump. Michael Flynn, fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafi Trump, játaði sök að hafa logið að alríkislögreglunni um samskipti sín við rússneskan sendiherra.

Sú ákvörðun James Comey, þáverandi forstjóra FBI, að tilkynna um að rannsóknin á tölvupóstum Clinton, sem Strozk vann að, hefði verið opnuð aftur aðeins nokkrum dögum fyrir kjördag í fyrra hefur af mörgum verið talin hafa valdið straumhvörfum í kosningabaráttunni.


Tengdar fréttir

Mueller veik FBI-manni til hliðar vegna skilaboða um Trump

Alríkislögreglumaður sem vann við rannsókn á afskiptum Rússa af forsetakosningunum í Bandaríkjunum er grunaður um að hafa skipst á skilaboðum við hjákonu sína sem túlka mætti sem neikvæð um Trump forseta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×